154. löggjafarþing — 59. fundur,  25. jan. 2024.

Útvistun heilbrigðisþjónustu.

[11:30]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir þessa mjög svo skemmtilegu og áhugaverðu umræðu. Ég ætla að byrja á því að segja það að ég er algerlega á móti einkavæðingu heilbrigðiskerfisins. Ég held reyndar að það hafi enginn talað sérstaklega fyrir einkavæðingu heilbrigðiskerfisins. Ég er mjög hlynnt einkavæðingu banka og síldarvinnslu og malbikunarstöðva og slíku. En heilbrigðiskerfið á að kosta af fé almennings. Ég held að það ríki um það bara mjög mikil sátt í íslensku samfélagi. Ég er að ítreka þetta vegna þess að einkarekstur er ekki sama og einkavæðing. Eins og hér hefur verið komið inn á þá búum við við blandað kerfi og mig langar gjarnan að við miðum okkur við þau lönd sem standa fremst. Ég vil horfa til Norðurlandanna, til norrænu velferðarsamfélaganna þar sem er einmitt blandað kerfi og jafnvel mun meira um einkarekstur og útboð á þjónustu heldur en við þekkjum hér á Íslandi. Aðalatriðið er þetta: Sjúklingurinn á alltaf að vera í fyrsta sæti og við eigum að tryggja bestu mögulegu þjónustu með sem hagkvæmustum hætti. Oft er það þannig að einkaaðilar, hvort sem það eru félagasamtök eða læknar og heilbrigðisstarfsmenn, nú eða bara hreinlega fyrirtæki sem taka þetta að sér, geta gert það með hagkvæmari hætti. En stóra málið fyrir ríkið er auðvitað að það þarf að skilgreina þjónustuna mjög vel. Það þarf að liggja fyrir skýr skilgreining á því hvaða þjónusta er ætlast til að sé veitt og það þarf að vera mikið og gott gæðakerfi í kringum þá þjónustu. Þetta á bæði við um opinberar stofnanir og stofnanir sem eru í eigu sjálfseignarstofnana eða einkaaðila. Það er algjört lykilatriði. Auðvitað á aldrei að tala um að opna hér kranann eða að einhver sé að maka krókinn eins og það sé stórhættulegt í heilbrigðiskerfinu okkar. Stóra atriðið er: Sjúklingurinn í fyrsta sæti með hagkvæmum aðgerðum. Ég ætla bara að hrósa hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir þær aðgerðir sem hann hefur verið að ráðast í. Það er mikilvægt að tryggja að fjármunum ríkisins sé vel varið, þeim sé varið til þess að gæta hagsmuna sjúklinga.