154. löggjafarþing — 59. fundur,  25. jan. 2024.

Útvistun heilbrigðisþjónustu.

[11:53]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu hér. Það er ekkert alltaf sem við erum að ræða algjör grundvallaratriði í pólitík í þessum þingsal en við erum svo sannarlega að því núna og það hefur verið áhugavert að fylgjast með því hvernig umræðan er að þróast. Einkarekstur eða útvistun er ekki markmið í sjálfu sér heldur leið að markmiði. Styttri biðlistar, betri þjónusta og betri nýting fjármagns, betur farið með fé — það er markmiðið. Það er enginn að tala um einkavæðingu hér í íslensku heilbrigðiskerfi. Það er einfaldlega annað hugtak. Núna er mikill útgjaldaþrýstingur á ríkissjóð, það vantar fé og það eru margir þeirrar skoðunar að það eigi að selja eignir til að mæta því að einhverju leyti, til að mynda banka. Það er enginn að tala um að selja spítalann og afsala ríkinu öllu forræði af honum eða öðrum mikilvægum heilbrigðisstofnunum sem eru hryggjarstykkið í okkar samfélagi. Þetta er einfaldlega tveir ólíkir hlutir og ég held að menn séu stundum svo fastir í kreddum þegar forskeytið einka er fyrir framan eitthvert orð að menn gleyma því að menn þurfa að hafa einhver rök til þess að styðja mál sitt með. Það var t.d. talað um það hér áðan að fyrrverandi heilbrigðisráðherra hefði bætt kerfið mjög mikið, m.a. heilsugæsluna. Hver er staðan þegar við skoðum heilsugæslur t.d. á höfuðborgarsvæðinu út frá þjónustukönnunum? Það kemur ítrekað fram að þær heilsugæslustöðvar sem eru einkareknar veita betri þjónustu og það er meiri ánægja með þær heldur en hinar sem eru ríkisreknar. En aftur: Einkarekstur er ekki markmið í sjálfu sér heldur einfaldlega leið til að tryggja meiri fjölbreytni. Ríkið á að fjármagna og ekki að afsala sér forræði yfir því að gera samninga um þetta. Þeir samningar þurfa að vera skýrir. Hvað er verið að borga fyrir? Hvað kostar það? Og algjört lykilatriði er að eftirlitið með einkarekstrinum, rétt eins og ríkishlutanum, þarf að vera öflugt og gott til þess að koma í veg fyrir sóun fjármuna og tryggja að það sé almenningur sem er í fyrirrúmi þegar þessi þjónusta er veitt.