154. löggjafarþing — 59. fundur,  25. jan. 2024.

tímabundinn stuðningur til greiðslu launa vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ.

609. mál
[12:12]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svar hans hér. Það gleður mig auðvitað að vita til þess að 500 einstaklingar eru enn þá með þetta ráðningarsamband sem skiptir svo miklu máli en þá sjáum við samt sem áður að við erum farin að tala um að 15–20% eru komin í þá stöðu að þurfa að leita beint til Vinnumálastofnunar án þess að vera í ráðningarsambandi við sinn atvinnurekanda eins og verið hefur. Það segir okkur líka bara um getu fyrirtækjanna til að koma til móts við þá einstaklinga sem hafa unnið hjá þessum fyrirtækjum.

Ég upplifði mikla depurð á þessum fundi með atvinnurekendum í Grindavík núna í vikunni og mér eru minnisstæð orð eins þeirra þegar hann sagði: Þessi staða er að kyrkja okkur, hún er að kyrkja okkur. Það ástand mun ekki batna miðað við það útlit sem fólk sér fyrir sér núna í náinni framtíð. Þá þurfum við auðvitað að fara að horfa til rekstrarstyrkja til fyrirtækjanna svo að þau bara lognist ekki út af. Það hlýtur að vera næsta verkefni og bíður þá þingsins að takast á við það.

Ég veit ekki hvað ég get sagt meira um þetta. Þetta úrræði er auðvitað gott eins langt og það nær og maður veit um fyrirtæki sem ekki eru farin að nýta þetta enn þá en, eins og hæstv. ráðherra segir, þetta átti að gilda fram í maí en getur svo sem gilt og mun gilda fram í september, en það gildir um stóru útgerðarfyrirtækin. Þau hafa ekki þurft, held ég, að fara í þetta úrræði en þau munu hugsanlega gera það í náinni framtíð ef þau geta ekki — og þá verður pakkinn verulega stór — (Forseti hringir.) hafið rekstur í þeim fasteignum sem þau eiga þarna (Forseti hringir.) og ef þau geta það ekki er hætta á að þetta lognist bara út af.