154. löggjafarþing — 59. fundur,  25. jan. 2024.

staðgreiðsla opinberra gjalda o.fl.

616. mál
[12:22]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir hennar framsögu hér í þessu máli og styð þetta heils hugar því að það skiptir auðvitað máli að við veitum andrúm til handa fyrirtækjunum á svæðinu. Það skiptir máli. Mig langar aðeins að spyrja, af því að hún nefndi að það væru í smíðum eða í vinnslu rekstrarstyrkir til handa fyrirtækjum, hvort hún gæti akkúrat núna á þessum tíma upplýst um hvernig þeim verður háttað, hvort þetta sé eitthvað í anda þeirra Covid-styrkja sem hér voru veittir á sínum tíma vegna þessa ástands sem þá var. Við getum í sjálfu sér alveg líkt þessu við þær hamfarir sem þá áttu sér stað og fyrirtækin gátu í raun og veru ekki verið í rekstri. Ég held að margir atvinnurekendur séu uggandi um stöðu sína. Markaðir eru í hættu, það eru stór og mikil útflutningsfyrirtæki sem þarna eru staðsett og þau hafa vissulega áhyggjur af því að geta ekki framleitt það sem þau hafa verið að gera með reglubundnum hætti til handa aðilum erlendis. Það bíður enginn eftir fiskinum á diskinn sem á kannski að afhendast á veitingahúsi eða hvar sem er í heiminum, menn leita þá bara markaða annars staðar. Þetta eru auðvitað bara viðsjárverðir tímar hvað það varðar. Ef hún gæti frætt okkur um hugmyndafræðina á bak við þessa rekstrarstyrki.