154. löggjafarþing — 59. fundur,  25. jan. 2024.

staðgreiðsla opinberra gjalda o.fl.

616. mál
[12:24]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður spyr hér um svona breiðu strokurnar í þeirri nálgun og það má alveg segja að við höfum helst verið að horfa til úrræðis sem kæmi einfaldlega til móts við tekjufall rekstraraðila á þeim tíma sem liðinn er frá því að jarðhræringar hófust. Ein spurningin er: Til hve langs tíma? Við erum að hugsa þetta upp að ákveðnum starfsmannafjölda þannig að það er áhersla á minni fyrirtæki. Ég tel mjög mikilvægt að við náum betra samtali við atvinnurekendur á svæðinu, sem eru auðvitað allt frá einyrkjum upp í nokkur mjög stór fyrirtæki. Við vitum líka að eins og sakir standa er von í því og uppleggið er að hægt verði að viðhalda þeirri starfsemi sem tengist höfninni með beinum hætti og vonandi tekst það. Það myndi bæði fela í sér frekari framtíðarvon fyrir bæjarfélagið en líka auðvitað bara vegna þess að þarna er gríðarleg verðmætasköpun sem á sér stað sem skiptir ekki bara máli fyrir samfélagið heldur þjóðarbúið allt. En þetta er bæði spurning um til hve langs tíma, þetta mun að einhverju leyti hanga saman við annað sem við erum að hugsa, og svo held ég að það þurfi að vera svigrúm fyrir þá starfsemi sem getur alveg haldið áfram en á öðrum stað. Til að mynda eru dæmi um rekstur þar sem þú ert annars vegar með kaffihús en þú ert líka með mikinn fjölda matarskammta á degi hverjum. Þá er spurning: Hvernig getum við komið til móts við það þannig að fólk sem það getur hafi tök á því að flytja sig til að viðhalda áframhaldandi verðmætasköpun? En líka þarf að vera þessi brú með tilliti til þeirrar óvissu ef það kemur til þess að fólk muni geta hafið þessa atvinnustarfsemi að nýju inni í Grindavík.