154. löggjafarþing — 60. fundur,  30. jan. 2024.

veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands og stjórn fiskveiða.

521. mál
[14:58]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Þórarinn Ingi Pétursson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Ingu Sæland fyrir spurningarnar og ætla ég að reyna að svara þeim eftir fremsta megni. Hv. þingmaður spurði hvort við hefðum ekki unnið málið nægilega vel á síðasta þingi. Jú, ég tel svo vera, enda erum við að leggja málið fram tiltölulega óbreytt. En ég ítreka það líka að það er alltaf þannig þegar menn fara aftur af stað í vinnu við ákveðin mál að tíminn líður og fram geta komið vísbendingar um hvað betur megi fara o.s.frv. Það var nú held ég það sem ég var að segja áðan.

Varðandi það hvort ég hafi bara opnað faðminn sem formaður atvinnuveganefndar og tekið á móti málinu af höndum matvælaráðherra þá skal það sagt, virðulegur forseti, að nefndarmenn í atvinnuveganefnd hafa fengið mikið af símtölum, tölvupóstum og alls konar skeytum frá aðilum sem stunda þessar veiðar og fengið hvatningu hvað það varðar. Sömuleiðis hefur verið þrýst á matvælaráðherra að koma fram með málið. Ráðherra kom að máli við mig og spurði hvort við myndum vilja taka málið upp innan atvinnuveganefndar. Það var borið upp og rætt innan nefndarinnar og ákváðum við að gera það. Ég get ekki svarað fyrir það hvers vegna, það verður ráðherra sjálfur að gera, en því miður er ráðherra fjarverandi vegna ákveðinna veikinda og getur þar af leiðandi ekki verið með okkur þessa stundina.