154. löggjafarþing — 60. fundur,  30. jan. 2024.

veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands og stjórn fiskveiða.

521. mál
[15:11]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Þórarinn Ingi Pétursson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg hárrétt hjá hv. þm. Eyjólfi Ármannssyni að maður veiðir ekki sömu grásleppuna tvisvar. Ég held að það liggi alveg í hlutarins eðli. En það sem er staðreynd í þessu máli er að grásleppa gengur misjafnlega upp að landinu milli landshluta. Þetta eru einhverjir sérstofnar sem ganga hérna á misjöfnum tíma og gefa sig á misjöfnum tíma að landinu. Það er fyrirsjáanleikinn. Það er fyrirsjáanleiki að menn geti vitað að hverju þeir geta gengið í hvert skipti sem menn fara til sjós, hvað menn megi veiða o.s.frv. Það er lykilatriði til að ná fram hagkvæmni.

Hv. þingmaður kom sömuleiðis inn á það að sumir veiddu lítið en aðrir minna. Jú, í hlutarins eðli er það þannig en heilt yfir er það þannig að þegar þú ferð af stað þá ertu búinn að leggja út fyrir ákveðnum kostnaði. Þú ert með bát, þú ert með net. Þetta er rándýr veiðiskapur og þú ferð ekki til sjós bara af því bara, bara af því að þig langi til þess. Þú ferð til sjós og þú ert með ákveðið magn sem þú getur veitt í það skipti, þá vertíð, og þú þarft að skila einhverri hagkvæmni við veiðarnar. Um það snýst þetta í grunninn. Þetta snýst ekki bara um að hafa gaman af að fara á sjó þótt það sé vissulega gaman að hafa stundað grásleppu og hef ég gert það á nokkrum vertíðum.