154. löggjafarþing — 60. fundur,  30. jan. 2024.

veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands og stjórn fiskveiða.

521. mál
[15:13]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við erum hér að ræða um frumvarp til laga um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, veiðistjórn grásleppu. Ég hjó eftir því að hv. þingmaður talaði um það að nýliðar í þessum veiðiskap, grásleppu, væru áhyggjufullir vegna þess að þeir sjá örugglega margir fram á að það borgi sig ekki fyrir þá að veiða af því að þeir hafa ekki það góðan kvóta. Það bara skilar engu. Og hvað eiga þessir menn þá að gera? Jú, þeir eiga eiginlega ekki annarra kosta völ en að selja. Það er lítið gagn í að vera með einhvern kvóta til veiða ef hann skilar engu eða bara tapi.

Ég heyrði hjá hv. þingmanni að hann sagði að þetta yrði skoðað í nefndinni, en ég spyr: Nú er frumvarpið nákvæmlega eins og það var í fyrra og hann sagði að það hefðu engar breytingar verið gerðar og það er búið að liggja þarna í heilt ár, af hverju í ósköpunum var ekki byrjað á þessu? Ég held og ég ætla bara að trúa því að það sem er að ske hér er að það á að vera eitthvert sýndarsamráð, svona: Já, við ætlum að gera eitthvað en hvað það verður, það er bara ákvörðun meiri hlutans. Miðað við þetta, að það var tekið út úr nefndinni af meiri hlutanum og fer nú í nefnd og verður fjallað um málið þar, sé ég ekkert því til fyrirstöðu og sér hv. þingmaður því eitthvað til fyrirstöðu að það verði bara tekið út úr nefndinni án þess að tekið verði tillit til eins né neins í sjálfu sér? Það er alveg hægt. Við höfum séð það gert og það hefur oft verið gert í nefndum. Hvernig sér hann líka fyrir sér að þetta verði þá, að þeir sem eru stærri og fjársterkari muni kaupa út þessa nýliða?