154. löggjafarþing — 60. fundur,  30. jan. 2024.

veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands og stjórn fiskveiða.

521. mál
[15:43]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við erum hér að ræða frumvarp til laga um breytingu á lögum um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands og lögum um stjórn fiskveiða, veiðistjórn grásleppu. Jú, þið sem eruð að koma að skjánum heyrið það rétt, það þarf auðvitað að setja grásleppuna í boxið, kvótaboxið. Það virðist vera stefna þessarar ríkisstjórnar og fleiri sem á undan hafa verið að kvótasetja allt sem hreyfist í sjónum, eða undir yfirborði hans. Og hvers vegna í ósköpunum skyldi það vera tilgangurinn? Vegna þess að oft hefur verið talað um að tilgangurinn sé að bæta kerfið, það muni hjálpa til við að auka veiðar og bara gera allt betra. En hefur það skilað sér þannig? Nei, langt því frá. Það eina sem þetta hefur skilað er samþjöppun. Þeir ríku geta keypt og aðrir sem eiga kvóta geta leigt hann. Það er gróðasjónarmið sem ræður öllu og þeir veikustu, sem hafa minnstan kvóta eða eru nýkomnir inn í kerfið, tapa.

Staðreyndin er sú, sem er alveg óyggjandi, að þeir sem myndu einhvern tíma seinna vilja kannski, ungt fólk, hugsa með sér: Jæja, nú ætla ég bara að fá mér trillu, nú ætla ég bara að fara að veiða — ekki til umræðu, ekki á grásleppu, ekki eftir að búið er að kvótasetja hana, vegna þess að viðkomandi þarf þá að kaupa kvóta. Það myndi pottþétt reynast þeim ofviða vegna þess að það sýnir sig í þeirri kvótasetningu sem þegar hefur átt sér stað að hún gengur kaupum og sölum. Við vitum t.d. að árið 2022 var leiguverð á kvóta 420.000 kr. á tonnið. Við hljótum að spyrja okkur oft að því, ég meina, þetta er orðið svo klikkað, viðkomandi sem ætlar að reyna að leigja kvóta og veiða — það er ekkert að skila honum neitt rosalega nema jú, mikilli vinnu, lítilli afkomu, en fyrir hinn sem á kvótann er það bara peningamaskína. Það bara tikka peningar í kassann hjá honum og hann brosir allan hringinn og þarf lítið fyrir því að hafa að ávaxta sitt fé, hvort sem hann hefur þá keypt kvótann eða átt hann fyrir. Það breytir engu máli vegna þess að hann er í frábærri stöðu. Þetta er það sem ég óttast líka mest með þessa veiðistjórn grásleppu, að það verði til þess að það verði samþjöppun, þeir ríku muni taka þetta yfir, þeir sem hafa fjármuni muni kaupa upp kvótann og síðan fari þetta nákvæmlega sömu leið og hingað til hefur farið.

Í þessu samhengi langar mig — ég fór að skoða, af því að það kom fram hjá hv. þingmanni í upphafi, sem mælti fyrir frumvarpinu, Þórarni Inga Péturssyni, að hann trúði því einhvern veginn að þetta yrði tekið til skoðunar í nefndinni og það yrði þá farið vel í gegnum þetta og tekið á þessum málum og hann sagði að það væru margir sem væru að hvetja til þess að setja kvóta á grásleppu. Það var talað um að þetta væri óbreytt frá árinu í fyrra. Ég fór inn á málið í fyrra og innsendar athugasemdir voru held ég 18, ef ég man rétt, og tók einn aðila bara strax og fór að lesa umsögn fyrsta einstaklingsins sem ég sá að kom upp í þessu. Hann heitir Halldór Gunnar Ólafsson, umsögn um frumvarp til lagabreytingar á lögum um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands og lögum um stjórn fiskveiða, 419. mál. Það fyrsta sem ég sá þegar ég fór að kíkja á þetta var þetta, og ég ætla að lesa það upp með leyfi forseta:

„Undirritaður er alfarið á móti kvótasetningu á grásleppu enda muni sú ráðstöfun rýra möguleika nýliða til þess að hefja smábátaútgerð. Á stöðum eins og Skagaströnd hafa heimamenn verið að fjárfesta í smábátum og horft til strandveiða, grásleppuveiða og byggðakvóta til þess að skapa fyrirtækjum sínum grundvöll. Grásleppuveiðar hafa þar skipt miklu máli enda verð á grásleppuleyfum verið yfirstíganlegt fyrir minni útgerðir og nýliða innan smábátaútgerðar.“

Yfirstíganlegt. Og áfram:

„Grásleppuveiðar eru gríðarlega mikilvægur þáttur í atvinnulífi á ákveðnum landsvæðum. Í mörgum tilfellum er um að ræða hinar dreifðu byggðir sem hafa átt undir högg að sækja, m.a. vegna samþjöppunar innan sjávarútvegsins. Kvótasetning á grásleppu mun því að mínu mati bitna harðast á þeim sem veikastir eru fyrir.

Komi til kvótasetningar mun eiga sér stað mjög hröð samþjöppun veiðiheimilda í ljósi þess að stór hluti handhafa grásleppuleyfa munu ekki fá nægjanlega mikla úthlutun til þess að hagkvæmt sé að hefja veiðar. Stórfelld viðskipti með þessar aflaheimildir munu því eiga sér stað um leið og kvótasetning hefur verið ákveðin og líklegt er að vinnsluaðilar á grásleppuafurðum muni reyna að tryggja sér sem mest af þessum veiðiheimildum með beinum eða óbeinum hætti. Grásleppusjómenn yrðu því fljótt leiguliðar eða verktakar við veiðarnar. Ég efast um að margir trillukarlar hafi fjármagn eða veðhæfi til þess að kaupa upp aflaheimildir félaga sinna.

Frumvarpið gerir ráð fyrir að 2% þak“ — það er nú komið þarna 1,5% ef ég man rétt — „verði sett á eignarhald á veiðiheimildum. Því má velta upp sviðsmynd þar sem allar veiðiheimildir væru vistaðar á 50 bátum á landsvísu. Í frumvarpinu er tilgreint að ráðherra sé heimilt að ákveða staðbundna svæðaskiptingu við veiðarnar en ég er þeirrar skoðunar að sú heimild verði ekki nýtt vegna þrýstings frá þeim aðilum sem halda um veiðiheimildirnar eftir að samþjöppun hefur átt sér stað. Þá munu útgerðaraðilar vilja hafa frelsi til þess að færa sig á milli staða eftir aflabrögðum og veðurfari til þess að hægt verði að ná leyfilegum hámarksafla. Samþjöppunin mun einnig krefjast að útgerðaraðilar fari af stað með mikið magn af netum til þess að reyna að ná útgefnum kvóta. Slíkt býður hættunni heim er varðar aukið brottkast á verðlausum fiski náist ekki að vitja um úthaldið með nægilega örum hætti. Undanfarin ár hefur náðst mun betri stýring á þessum þáttum þar sem netafjöldi hefur verið takmarkaður og betri tækni til staðar er varðar eftirlit með netafjölda.

Mikið er talað um að hlutdeildarsetning muni auka mjög fyrirsjáanleika við veiðarnar þar sem mönnum verði ljóst hversu mikið þeir megi afla. Ekki verður séð að slíkum fyrirsjáanleika verði að fullu náð fyrr en Hafrannsóknastofnun mun treysta sér til að veita ráðgjöf varðandi heildaraflamark með öðrum hætti en gert er í dag. Mönnum mun verða ljóst hvert hlutfall þeirra í heildarmagninu mun verða en heildaraflamagnið mun að óbreyttu ekki liggja fyrir fyrr en vorrall stofnunarinnar hefur farið fram. Það verður því áfram töluverð óvissa til staðar þrátt fyrir breytta veiðistýringu. Nánast má líkja þessu ferli við það sem tíðkast í kringum veiðar á loðnu í dag.

Í tengslum við frumvarpið hefur mönnum verið tíðrætt um lítinn áhuga á grásleppuveiðum og litla nýliðun innan greinarinnar. Ég er þeirrar skoðunar að þar spili fyrst og fremst inn í verð á afurðum grásleppunnar. Enn er það svo að grásleppuhrogn eru fyrst og fremst seld sem staðkvæmdarvara fyrir styrjuhrogn. Markaðurinn hefur alla tíð verið takmarkaður og viðkvæmur fyrir magnbreytingum. Í um 33 ár hefur verið starfandi hópur LUROMA sem fjallar um birgðir og ástand á markaði. Í hópnum eru fulltrúar helstu veiðiþjóða grásleppu sem hafa reynt að koma sér saman um veitt magn til þess að reyna að tryggja stöðugleika á markaðnum. Verðmyndun hefur því eðlilega alltaf verið afgerandi þáttur í áhuga manna á þessum veiðum, ekki endilega veiðistjórnunin. Allar hugmyndir og óvissa varðandi kvótasetningu hefur jafnframt að mínu mati haft mikil áhrif á viðskipti með grásleppuleyfin. Það myndast óvissa um verðmæti þeirra og menn halda að sér höndum, bæði kaupendur og seljendur.

Engum þarf að koma á óvart að núverandi handhafar grásleppuleyfa séu að stærstum hluta fylgjandi hlutdeildarsetningu. Eignarhald á varanlegum aflaheimildum hefur í flestum tilfellum tryggt mönnum væna „starfslokasamninga“ þegar menn ákveða að hætta útgerð. Þeir hagsmunir geta eðlilega haft mikil áhrif á afstöðu þeirra hvað hlutdeildarsetningu varðar.

Lengst af hefur sú sóknarstýring sem viðhöfð hefur verið í tengslum við grásleppuveiðar gengið nokkuð vel. Afli hefur sjaldan farið umfram ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar en þess má geta að stofnunin gaf fyrst út leyfilegan hámarksafla árið 2012. Fram að þeim tíma skilaði grásleppunefnd LS tillögu að dagafjölda til sjávarútvegsráðherra sem gaf í kjölfarið út reglugerð um veiðarnar. Tillaga grásleppunefndar var fyrst og fremst miðuð út frá ástandi á markaði til þess að tryggja stöðugleika á honum og ásættanlegt verð fyrir afurðirnar. Þær aðstæður sem sköpuðust síðasta vor voru að ég best veit fordæmalausar. Afar sjaldgæft er að upplifa svo góð aflabrögð allt í kringum landið á sama tíma. Jafnframt voru veðurskilyrði lengst af góð m.t.t. grásleppuveiða. Ég er þeirrar skoðunar að sjávarútvegsráðherra hefði getað gripið mun fyrr til aðgerða með það fyrir augum að auka jafnræði á milli veiðisvæða og lágmarka skaðann sem varð.

Ég tel að það sé vel hægt að sníða vankanta af núverandi kerfi með því t.d. að opna fyrir sameiningu leyfa, heimila mönnum að tilkynna að veiðarfæri hafi verið dregin upp vegna ógæfta eða óæskilegs meðafla án þess að veiðidagar haldi áfram að telja. Slíkar breytingar myndu að mínu mati auka arðsemi greinarinnar ásamt því að auka áhuga á þátttöku og nýliðun innan grásleppuveiða. Það vekur nokkra furðu hversu lítil áhersla var á slíkar hugmyndir í vinnu starfshóps sem starfaði fyrir sjávarútvegsráðherra árið 2018.

Ég hef í störfum mínum hjá Sjávarlíftæknisetrinu BioPol ehf. á Skagaströnd notið þeirrar gæfu að stunda rannsóknir á hrognkelsum í góðu samstarfi við grásleppusjómenn og Hafrannsóknastofnun síðan 2008. Sú vinna hefur skilað fjölmörgum ritrýndum vísindagreinum en mikið af þessari vinnu hefur farið fram um borð í grásleppubátum um allt land. Ég tel mig því hafa nokkuð góða innsýn í málefnið sem hér um ræðir og er tilbúinn til þess að mæta á fund atvinnuveganefndar til þess að ræða þetta mál ef þörf er talin á.

Ég hef engra beinna hagsmuna að gæta varðandi fyrirkomulag grásleppuveiða. Ég vil þó fyrir alla muni reyna að tryggja að afkomendur mínir og aðrir sem vilja leggja fyrir sig smábátaútgerð á Íslandi geti stundað grásleppuveiðar án stærri fjárhagslegra hindrana en þeirra sem fyrir eru í dag.“

Svo segir Halldór Gunnar Ólafsson. Og þetta er ekki það eina, ég fann fullt af fleiri, fleiri svona þar sem menn hreinlega vara við þessari vitleysu. Og það sem kannski er eiginlega furðulegast í þessu líka er, eins og kom fram þegar ég fór í andsvör við hv. formann nefndarinnar, að hann taldi að það yrði tekið á þessum málum. Ég verð bara að segja að sporin hræða. Ég hef ekki hingað til séð að það sé tekið mikið á þeim málum sem þegar er búið að ákveða. Það er greinilega búið að ákveða að setja þetta í boxið, setja þetta í kvótakerfið og þeir þrýsta auðvitað mest á það sem sjá fram á það að græða mest á þessu. En þeim er auðvitað alveg skítsama um hina sem þurfa að sjá fram á það, sem verður alveg pottþétt, að þeir sem fá það lítinn kvóta að það borgar sig ekkert fyrir þá að veiða hann vegna þess að það yrði bara tap, það skilaði engu, þeir munu auðvitað selja hann. Hverjir munu kaupa hann? Jú, þeir fjársterku.

Það var sagt hérna áðan að það væri ekki hægt að veiða sömu grásleppuna tvisvar en ég spyr mig: Hvað verður hægt að selja sömu grásleppuna oft, og á milli hversu margra aðila? Síðan verður auðvitað hægt að leigja hana, leigja út veiðar á þessu, og þá er alltaf spurningin að það segir sig sjálft að sá efnameiri, sem á þetta, hann græðir, hinir sem þurfa að kaupa munu fá — þeirra verður erfiðið að ná grásleppunni úr sjónum og síðan að fá einhverja smáaura fyrir sitt viðvik, sem er auðvitað miklu meira. Maður fer að hugsa hvað það er fáránlegt að við skulum vera með þannig kerfi að þeir sem leggja á sig mest og eru virkilega tilbúnir til þess að veiða og þurfa að leigja kvóta og leggja á sig að veiða séu tiltölulega að fá minnst út úr þessu, en sá sem liggur heima hjá sér inni í stofu og bara í hægindastólnum eða einhvers staðar erlendis á sólarströnd græðir á tá og fingri.