154. löggjafarþing — 60. fundur,  30. jan. 2024.

veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands og stjórn fiskveiða.

521. mál
[15:58]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegur forseti. Frumvarp það sem hér er til umræðu um breytingu á lögum um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands og lögum um stjórn fiskveiða, veiðistjórn grásleppu, er flutt af meiri hluta atvinnuveganefndar sem er mjög sérstakt. Ég þurfti nú að skoða þingskapalögin til að athuga það hvort meiri hluti nefndar hefði heimild til þess að mæla fyrir frumvarpi, en svo mun vera í 95. gr. laga um þingsköp Alþingis að heimild er til þess hjá meiri hluta nefndar. Ég tel að það sé að mörgu leyti óeðlileg heimild að meiri hluti nefndar fái að flytja frumvarp í þingsal, nefnd sem tekur málið síðan til faglegrar afgreiðslu í þingnefnd þegar meiri hluti nefndarinnar sjálfrar er búinn að mæla fyrir því. Það segir sig sjálft hvernig afgreiðsla þess frumvarps mun verða.

Einnig er það að hér er frumvarp sem hæstv. matvælaráðherra flutti í fyrra. Vegna pólitískrar stöðu sinnar treysti hún sér ekki til þess að gera það aftur, vegna stöðunnar í eigin flokki. Þá er óskað þess að meiri hluti atvinnuveganefndar taki keflið og flytji málið hér með þeim breytingum sem nefndin vildi gera á því á fyrra þingi. Ég tel að þetta sýni stöðu ríkisstjórnarinnar í hnotskurn. Ríkisstjórnin getur ekki í krafti þingmeirihluta síns lagt fram stjórnarfrumvarp um kvótasetningu á grásleppu með venjulegum hætti heldur þarf meiri hluti atvinnuveganefndar að gera það.

Hér á að breyta kerfinu úr því að vera dagakerfi með takmörkuðum fjölda leyfa og veiðidaga sem veiðum á grásleppu er stjórnað með. Það er vissulega takmörkun á atvinnufrelsi landsmanna, en það eru hins vegar engin rök fyrir því, fiskifræðileg rök eða önnur, sem mæla fyrir því að kvótasetja þennan stofn. Engin rök eru fyrir því og engir almannahagsmunir mæla fyrir því að núna eigi að kvótasetja. Það kom fram í máli framsögumanns þar sem hann sagði að verið væri að mæta ósk þeirra sem stunduðu veiðarnar. Það eru ekki almannahagsmunir. Mikið hefur verið um símtöl og netpósta til þingmannsins og fleiri þingmanna um að það væri mikilvægt að kvótasetja en það eru ekki almannahagsmunir, það eru þeir bara ekki. Meginreglan er sú sem stendur í 75. gr. stjórnarskrárinnar, með leyfi forseta:

„Öllum er frjálst að stunda þá atvinnu sem þeir kjósa. Þessu frelsi má þó setja skorður með lögum, enda krefjist almannahagsmunir þess.“

Það eru engir almannahagsmunir sem leiða til þess að kvótasetja eigi grásleppuveiðar. Núverandi kerfi var algerlega fullnægjandi til þess að tryggja verndun stofnsins. Það var hins vegar ekki fullkomið kerfi og væri eðlilegt að endurskoða það út frá svæðaskiptingu og öðru slíku. Eins og kemur fram í frumvarpinu og kom fram í máli framsögumanns þá veiddist t.d. eitt árið, árið 2020, mikið af grásleppu fyrir norðan en minna í Breiðafirði. Það er alveg klárt mál að það er ekki hægt að veiða sömu grásleppuna tvisvar. Það var ekki verið að ofveiða grásleppu í Breiðafirði það árið, svo mikið er víst. Annað sem er í þessu er að ef það er mikil veiði, þá er mikill fiskur. Greinilega var mikil grásleppugengd árið 2020 og það var vel. Þess vegna veiðist mikið og ég held að núverandi kerfi henti mjög vel til grásleppuveiða að mörgu leyti. Það sem verið er að gera núna með kvótasetningu mun strax hraða allri samþjöppun á grásleppuveiðum. Það verður samþjöppun veiðiheimilda og ekki ólíklegt að einn eða tveir kaupi upp veiðiheimildirnar og þannig lokist kerfið. Það er engan veginn nægjanlegt, eins og kemur fram í greinargerð með frumvarpinu sem lagt var fram í fyrra, að 5,3% af veiðiheimildunum fari til nýliðunar. 5,3% af heildarveiðiheimildum er einfaldlega ekki nægileg nýliðun. Það er mjög eðlilegt að halda áfram með núverandi kerfi og eins og kemur fram hjá Hafrannsóknastofnun hefur kvótasetningin engin áhrif á fyrirsjáanleikann, ekki nokkur. Það er alveg klárt mál að hér er verið að sinna sérhagsmunum vegna þessarar óskar til þingmanna um að fara nú að kvótasetja svo að einstakir einstaklingar geti fengið kvóta sem þeir geta komið í verð. Þetta er ekki nýtt. Þetta gerðist líka m.a. milli 2000 og 2010. Þegar verið var að breyta dagakerfinu hjá þorsknum voru það yfirleitt sjómenn á ákveðnum aldri sem kröfðust kvótasetningar til að geta selt sig út úr kerfinu, svo einfalt er það.

Hér er um mikilvægt mál að ræða og það er rétt sem kom fram í máli hv. þm. Ingu Sæland, formanns Flokki fólksins, að hér er verið að taka Verbúðina á landsmenn eina ferðina enn. Og að halda því fram að veiðistjórn grásleppu hafi verið ómarkviss og ófyrirsjáanleg fyrir þá sem stunda veiðarnar — hún er ekkert ófyrirsjáanlegri en það að þeir fá tiltekinn fjölda daga til að veiða og fjöldi leyfa er takmarkaður.

Það sem hefði þurft að gera er að skoða t.d. núverandi kerfi, svo við kíkjum aðeins á það. Nú eru veiðarnar bundnar samfelldum dögum sem þýðir að þegar leyfi er virkjað á skip hefst talning daganna óháð veðri, sem gæti ýtt undir það að veitt sé þótt veður séu slæm eða óæskilegur meðafli sé mikill o.s.frv. Þá er ekki hægt að taka tillit til bilana og veikinda eða annarra ófyrirséðra tafa. Þetta þarf að laga í núverandi kerfi og er mikilvægt að gera það sem allra fyrst þannig að dagakerfið sem nú er í gildi henti sjómönnum betur. Dagakerfið er fyrir sjómennina til þess að þeir geti stundað grásleppuveiðar á sem hagkvæmastan hátt. Að rjúka til núna og setja þetta í kvóta er ekki rétta lausnin fyrir þessa tegund veiða, ekki á nokkurn einasta hátt. Þetta minnir mig mjög mikið á frumvarpið um veiðistjórn sandkola og hryggleysingja, að nánast sé verið að búa til eigið fé fyrir útgerðirnar. Það eru engin fiskverndarleg rök sem mæla fyrir að kvótasetja þurfi grásleppu, ekki ein einustu. Kvótakerfið byggir á almannahagsmunum og engum öðrum hagsmunum en þeim að vernda fiskstofna við landið, og svo á atvinnufrelsið að ráða. Að sjálfsögðu er mikilvægt að það sé gert með hagkvæmum hætti en kvótakerfið sem slíkt er ekki rök, aukin hagkvæmni er ekki rök fyrir kvótakerfinu, það er verndun fiskstofnanna.

Ég vona að þetta mál eigi eftir að daga uppi í nefnd aftur, eins og í fyrra, og það er klárt mál að ekki er þingmeirihluti innan núverandi ríkisstjórnarflokka fyrir þessu máli. Þess vegna er meiri hluti atvinnuveganefndar að leggja þetta mál fram aftur, vegna þess að ráðherrann treystir sér ekki til þess. Hann getur ekki lagt það fram sem stjórnarfrumvarp því að stjórnarmeirihlutinn er ekki fylgjandi því. Ég veit ekki hvort það séu einstaka undanvillingar úr stjórnarandstöðunni sem ætla að styðja þetta mál en það breytir því ekki að það er ekki tækt sem stjórnarfrumvarp. Það er grundvallaratriðið í þessu máli.

Eins og ég hef komið inn á er klárt mál að þetta mun hraða samþjöppun veiðiheimildanna á grásleppu og kvótasetning mun ekki hafa nein áhrif á fyrirsjáanleikann. Það er augljóst mál að íslenskir sjómenn hafa að sjálfsögðu í núverandi kerfi reynt að fá sem mest verðmæti út úr grásleppuveiðunum og það þarf líka að sjá til þess að þeir geti komið með meðaflann að landi við dagaveiðarnar. Fjöldi útgerða fær til sín allt of litlar aflaheimildir til að útgerðin borgi sig vegna meðafla. Meðafli er t.d. háður veiðitímabili, fjölda neta í sjó og algerlega ófyrirséðum þáttum á borð við fiskigengd annarra fiska á veiðislóð og ætisleit sjávarspendýra og fugla á slóðinni. Mikilvægt er því að tryggja að smábátasjómenn hafi svigrúm til þess að landa meðafla og fénýta hann, auk þess að takmarka fjölda neta í sjó. Það er grundvallaratriði í grásleppuveiðum að þú getir tekið með þér meðafla að landi.

Það er alger misskilningur að kvótasetning leiði til einfaldari stjórnsýslu og eftirlits, það er bara ekki rétt. Það er ekkert sem segir það, ekki neitt. Þvert á móti er miklu einfaldara að hafa þetta á ákveðnum dögum heldur en að segja: Heyrðu, þú færð bara ákveðinn kvóta og svo veiðir þú hvenær sem er. Reglur til að einfalda stjórnsýslu og eftirlit eiga ekki að takmarka atvinnufrelsi landsmanna af því að það er betra fyrir kerfið, betra fyrir eftirlitsiðnaðinn. Það er ekki þannig sem stjórnarskráin virkar. Atvinnufrelsi er tryggt í landinu. Öllum er frjálst að stunda þá atvinnu sem þeir kjósa og það er eingöngu hægt að setja þessu frelsi skorður með lögum séu almannahagsmunir fyrir hendi og þeir krefjist þess. Það er ekki nóg að þeir séu fyrir hendi, heldur verða almannahagsmunir að krefjast þess að atvinnufrelsi sé takmarkað. Hér er eingöngu verið að þjóna þeim sem hafa haft samband og ýtt á þingmennina og eru í raun að krefjast þess að búin verði til verðmæti fyrir þá úr aflaheimildunum sem verða síðan seldar. Þetta mun leiða til mikillar einsleitni í veiðum á þessari tegund, en í dag er mjög fjölbreyttur hópur sem stundar þær, og ekkert ólíklegt að jafnvel einn aðili sitji uppi með obbann af kvótanum. Svo dæmi sé tekið er ein verksmiðja á landinu, á Akranesi, sem vinnur úr grásleppuhrognum og hún er í eigu eins helsta kvótaeiganda landsins og ekki er ólíklegt að hann kaupi upp heila bixið og láti síðan veiða fyrir sig. Og hvar standa sjávarbyggðirnar þá? Jú, það verður ekki einn einasti veiðiréttur í þessum sjávarbyggðum og enginn mun hafa neina daga til að veiða grásleppu af því að búið er að selja allan kvótann úr byggðarlaginu.

Þessa sögu þekkjum við og höfum þekkt hana síðustu 30–40 ár. Það eru a.m.k. 30 ár síðan framsal veiðiheimilda var leyft og það er ein mesta sorgarsaga sem átt hefur sér stað í Íslandssögunni hvernig farið hefur verið með sjávarbyggðirnar. Ef við tökum þetta bara út frá strandveiðunum, sem ógna ekki fiskstofnum við landið, þá er grásleppustofninn ekki í hættu og ekki að hruni kominn. Veiði er mismunandi eftir árum og kerfið sem nú er í gangi hefur þjónað sínum tilgangi ágætlega. Við eigum hins vegar að bæta það og gera það betra þannig að það henti sjómönnunum betur og þessari veiðiaðferð sem stunduð er á vorin.

Markmið frumvarpsins er sagt vera verndun og hagkvæm nýting. Ég er búinn að fjalla um það. Það er alger óþarfi að breyta um kerfi til að auka verndun. Þetta eykur ekki fyrirsjáanleika og skýrsla Hafrannsóknastofnunar sýnir fram á það að kvótasetning hefur ekki áhrif á fyrirsjáanleikann. Sjálfbærni veiðanna mun ekki aukast. Ekki mun þetta bæta umgengni. Það er ekkert sem sýnir það að kvótasetning bæti umgengni um fiskstofnana, ekki neitt. Hins vegar eru líkur til þess að kvótasetning auki brottkast. Af hverju? Af því að allir reyna að koma með sem verðmætastan kvóta, sem verðmætast kíló að landi til þess að tryggja það að sem mest verðmæti fáist. Og hvernig gera menn það? Jú, það má henda því sem er minna verðmætt til að fá verðmesta kílóið. Það er síðan rangt að halda því fram að einföldun á stjórnsýslu og eftirliti fylgi kvótasetningu.

Ég tel að það sé ekki rétt af meiri hluta atvinnuveganefndar að leggja fram þetta frumvarp. Það á að vera í höndum hæstv. matvælaráðherra eins og hann gerði í fyrra og frumvarpið á að daga uppi í nefnd eins og það gerði í fyrra. Hér er nefndin að taka sér frumkvæði sem vissulega er lagaheimild fyrir, en það er ekki þingræðislegt þar sem núverandi þingmeirihluti sem ríkisstjórn Íslands í dag styðst við virðist ekki styðja þetta frumvarp. Ég vonast til þess að þetta mál verði ekki að lögum og Flokkur fólksins mun beita sér fyrir því með kjafti og klóm. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)