154. löggjafarþing — 60. fundur,  30. jan. 2024.

veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands og stjórn fiskveiða.

521. mál
[16:36]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegi forseti. Ég tel mikilvægt að koma hérna aftur í ræðu og fara aðeins betur yfir þetta sem ég gerði að hluta til í minni fyrri ræðu. Það sem hér er að eiga sér stað er að það er einfaldlega vera að kvótasetja fisktegund sem þarf ekki að kvótasetja. Mörg undanfarin ár hefur ekki náðst að veiða upp í það að aflahámark sem ráðherra hefur sett, svo einfalt er það, þannig að það eru engin verndunarsjónarmið sem eru hér á bak við. Það er verið að tala um það, eins og kom fram í ræðum hér áður, m.a. framsögumanns, að mæta óskum þeirra sem stunda veiðarnar; það eru símtöl og mikið um netpósta. Hverjir eru þetta sem eru að hafa samband? Jú, það eru þeir sem vilja eignast kvóta, annaðhvort til þess að eiga, það er jú peningur í þessu, eða til að eiga og selja.

Ríkið er hérna að búa til fjármagn með lagasetningu sem er framseljanlegt. Þú getur takmarkað hvað sem er. Þú getur takmarkað sólarlandaferðir og farið að selja leyfi til sólarlandaferða. Sama hvað það er í heiminum. Pítsugerð. Það er hægt að gera það: Það mega bara vera 100 pítsustaðir í landinu. Þá geturðu selt á uppboði þessi 100 leyfi og svo geturðu sagt að þú munir framleiða svona margar pítsur og þá ertu kominn með kvóta á pítsur.

Það eru engin málefnaleg rök, engir almannahagsmunir sem knýja á um að það eigi að vera kvótasetning hér á og þeir sem þrýsta á um þetta eru þeir sem hafa hagsmuni af því. Það er ekki verið að líta til almannahagsmuna eins og stjórnarskráin gerir skýra kröfu um, það er ekki verið að gera það, svo það liggi algerlega fyrir. Í dag eru veiðisvæðin sjö og er hvert grásleppuleyfi gefið út til 25 samfelldara daga og bundið við ákveðin veiðisvæði og veiðitímabil. Ráðherra gerir þetta í byrjun og veiðitímabilið byrjar 20. mars og svo kemur Hafró 1. apríl með skýrslu sína og ráðgjöf um það hvað hún telur eðlilegt að veiða mikið. Þá tekur ráðherra sér umhugsunarfrest og hefur samráð við hagsmunaaðila, m.a. Landssamband smábátasjómanna og fleiri, um það hvað hann telji eðlilegt að leyfa, hámarksveiði. Það er hið eðlilega kerfi.

Ókosturinn er hins vegar talning veiðidaga. Talning veiðidaga er óháð veðri, óháð bilunum á bátunum, veikindum og öðrum ófyrirséðum töfum. Það sem þarf að gera hér er að binda veiðidagana í virka veiðidaga, leyfa sjómönnum, grásleppukörlunum, að taka upp netin ef það er slæm veiði svo þeir geti nýtt dagana seinna þegar þeim hentar. Það er það sem þarf að gera. Það þarf að laga núverandi kerfi. Það er grundvallaratriðið. Hópurinn sem stundar þessar veiðar í dag er gríðarlega fjölbreyttur. Það er alveg kristaltært að þegar var búið að kvótasetja — og við skulum vona að það verði ekki gert með þingstyrk hér á Alþingi og þetta verði svæft í nefnd eina ferðina enn, það er þar sem það á heima — þá mun fjölbreytileiki veiðimanna minnka, það mun snarlega fækka í þeim hópi sem stundar þessar veiðar. Aðgengið að grásleppuveiðum mun minnka. Það verður nánast útilokað að hefja grásleppuveiðar. Það er nákvæmlega það sem mun gerast.

Þessi 5,3%, það á að taka 5,3% af heildarafla grásleppu og úthluta aflamarki til nýliða sem eru að hefja grásleppuveiðar í fyrsta skipti. Ja, hvað á maður að segja? Er einhver að halda því fram að það verði einhver alvörunýliðun með úthlutun kvóta upp á 5,3%? Auðvitað ekki. Það mun enginn hafa aðgang að þessu kerfi, grásleppuveiðum, það munu engir hafa aðgang að þessum grásleppuveiðum nema með því að kaupa sér kvóta, höfum það algerlega á hreinu. Það er verið að loka kerfinu. Á ensku myndi maður segja að það væri verið að „kartalísera“ þetta. Það er það sem er verið að gera; loka kerfinu og þú þarft að kaupa þig inn í kerfið. Þessi 5,3% gera ekkert til að breyta því. Það er það sem verður að gera; það er verið að loka kerfinu, skapa auðæfi fyrir þá sem hafa veiðireynslu og vilja selja sig út úr kerfinu til að kassa inn á það, fá sér pening, fara á eftirlaun. Það hefur gerst áður í sögu kvótakerfisins.

Það er engin ástæða fyrir þessu. Það er ekkert sem breytir varðandi fyrirsjáanleika. Sérfræðingar Hafrannsóknastofnunar hafa þegar sagt það. Fyrirsjáanleiki liggur fyrir. Þú getur byrjað að veiða 20. mars. Þetta er endurskoðað upp úr 1. mars og þá gefur ráðherrann út fleiri daga, væntanlega eykur hann dagafjöldann og þá vita menn hversu marga daga þeir hafa. Það sem þarf að gera er að tryggja að þetta séu virkir veiðidagar. Og að sjálfsögðu eru sumir góðir að veiða og aðrir ekki eins góðir að veiða, eins og er í öllum atvinnugreinum í landinu. Sumir eru góðir að baka pítsu, aðrir ekki, sumir góðir að veiða grásleppu og aðrir ekki. Það á að gefa atvinnufrelsi í þessu máli og það er það sem Ísland á að byggja á.