154. löggjafarþing — 61. fundur,  31. jan. 2024.

Störf þingsins.

[15:05]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Í vikunni rakst ég á sögu tannlæknis frá Úkraínu sem kom hingað sem flóttamaður í mars 2022 og hefur nú fengið leyfi landlæknis til starfa sem tannlæknir á Íslandi. Það eru virkilega jákvæðar fréttir. En ég heyri líka of margar sögur um að innflytjendur fái nám eða starfsréttindi ekki metin á Íslandi. Fólk strandar í ferlinu og veit ekki hvar hindrunin liggur eða fær ekki upplýsingar um hvaða þekkingu þarf að bæta ofan á fyrri þekkingu til að geta nýtt sína menntun í íslensku umhverfi.

Í gær átti ég hér orðastað við hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra um mat á námi innflytjenda. Þar kom fram að verkefnin dreifast á margar stofnanir og ráðuneyti. Það er ekki til staðar eitt samræmt kerfi eða gátt til að fá menntun erlendis frá metna. En þar kom líka fram að meiningin er að koma upp rafrænni gátt, efla raunfærnimat og tryggja stuttan og skilvirkan matstíma á námi og starfsréttindum. Það er mjög mikilvægt í mínum huga, enda er þar um að ræða mikilvæga fjárfestingu í fólki og í samræmi við stjórnarsáttmála.

Innflytjendur eru nú um 18% af heildarfjölda landsmanna og í mörgum byggðarlögum er hlutfallið hærra. Seinni hluta síðasta árs voru innflytjendur um 23% af heildarfjölda starfandi á Íslandi. Almenn atvinnuþátttaka á Íslandi er 82% en atvinnuþátttaka innflytjenda er mun meiri eða tæplega 87%. Það er meira en í öðrum norrænum ríkjum. Innflytjendur sinna mikilvægum störfum, t.d. í fiskvinnslu eða iðnaði, ferðaþjónustu og í vaxandi mæli í heilbrigðis- og velferðarþjónustu. Menntunarstig innlendra og innflytjenda á Íslandi er áþekkt. Við þurfum á þekkingunni halda þar sem hún nýtist sem best.