154. löggjafarþing — 61. fundur,  31. jan. 2024.

Störf þingsins.

[15:16]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Þorrinn er mættur og veðrið er samkvæmt því. Ég ætlaði vestur á firði þar sem sólin skín í dag, en kunnugleg stef hljómuðu í gær og í fyrradag um lokanir á Súðavíkurhlíð vegna snjóflóðahættu og snjóflóða og heiðar vestra illfærar eða lokaðar.

Margt hefur verið gert til að tryggja öryggi vegfarenda á Súðavíkurhlíð, snjóflóðaskápar og þil, en til þess að tryggja fyllilega öryggi vegfarenda milli Súðavíkur og Ísafjarðar þarf að ráðast í jarðgangaframkvæmdir. Á Súðavíkurhlíð eru merkt 24 gil sem hætta er á snjóflóðum úr, en kunnugir segja að þau séu fleiri og þá eru ótalin hættusvæði á Kirkjubólshlíð.

Það er ekki nýtt að vegir lokist, við þekkjum það nú bara í dag hér á suðvesturhorninu. En málið er að það eru aðrar aðstæður núna en voru fyrir aldarfjórðung eins og fyrir vestan. Þá var samfélagsgerðin önnur. Innan hvers byggðarlags var eitt samfélag. Íbúar sóttu sína vinnu innan þess, skóla, heilsugæslu og félagslíf. Ein góð norðanhríð sem stóð í viku setti ekki hversdagslífið úr skorðum. Nú eru landfræðileg mörk byggðarlaganna önnur og samfélögin stærri. Í dag eru vinnusóknarsvæði á Vestfjörðum færri og þjónusta og verslun færð í stærri kjarnana. Þetta gengur allt vel í þeim heimi þar sem samgöngur eru greiðar en í því árferði sem nú ríkir veldur þetta meiri einangrun en ella.

Grundvallarþörf þessa samfélags sem við erum búin að hanna eru greiðar samgöngur. Kröfur um enn meiri samvinnu í samfélögum krefjast greiðari og öruggari samgangna. Miklar samgöngubætur og uppbygging nútímavega hafa orðið á Vestfjörðum og það kallar enn fremur á aukna vetrarþjónustu síðastliðna áratugi, en úrbóta er enn þörf.

Virðulegi forseti. Jarðgöng á sunnanverðum Vestfjörðum um Hálfdán og Mikladal eru jafn mikilvæg. Jarðgöng milli byggðakjarna eiga alltaf að vera tilbúin á teikniborðinu með tilliti til byggðaþróunar, daglegrar vinnusóknar og ekki síður vegna aukinna umsvifa fiskeldis sem skilar þjóðarbúinu 10 milljörðum í útflutningstekjur. Þá þurfa samgöngur vestra að vera skilvirkar, öruggar og heilsárs. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)