154. löggjafarþing — 62. fundur,  31. jan. 2024.

búvörulög.

33. mál
[17:48]
Horfa

Magnús Árni Skjöld Magnússon (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vona að hv. þm. Njáll Trausti Friðbertsson haldi ekki að ég sé á móti fæðuöryggi. Það er ég svo sannarlega ekki enda var það ekki hluti af þeirri ræðu sem ég flutti hér áðan og nefndi þá að vonandi fáum við tækifæri til að tala betur um það hér á eftir. Ég held að það sé gríðarlega mikilvægt að standa vörð um fæðuöryggi og styð bara eindregið að það sé gert. Við verðum að sjá til þess að hér séu framleidd matvæli og að hér séu til matvæli — af því að við framleiðum auðvitað ekki allt sem við borðum, klárlega ekki, við höfum ekki tök á því — til að hér verði ekki fæðuskortur ef kemur til brests í aðfangakeðju sökum náttúruhamfara eða ófriðar eða annars óskunda.

Að sama skapi er ég alls ekki andstæðingur hagræðingar í landbúnaði. Ég geri mér auðvitað grein fyrir því að við göngum ekki í Evrópusambandið á hálfu ári og það mun ekki leysa vanda sauðfjárbænda vorið 2025. En þangað til að við kæmumst mögulega inn í það að skoða hvort það væri íslenskum bændum hagfellt að vera hluti af evrópsku landbúnaðarstefnunni þá er um að gera að velta upp þeim steinum sem þarf að velta til að skoða hvað hægt er að gera betur og hvað hægt er að gera hagkvæmar þegar kemur að því að framleiða þessa mikilvægu vöru á okkar ágæta landi.