154. löggjafarþing — 63. fundur,  1. feb. 2024.

Reykjavíkurflugvöllur og ný byggð í Skerjafirði.

[10:48]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Ég beini hér fyrirspurn til hæstv. innviðaráðherra er varðar Reykjavíkurflugvöll með vísan í frétt í Morgunblaðinu í morgun þar sem hæstv. ráðherra segir m.a., og þar er verið að fjalla um þá skýrslu sem er verið að vinna varðandi flugskilyrði í Hvassahrauni fyrir mögulegan flugvöll þar, með leyfi forseta:

„Í ljósi alls þessa er auðvitað ljóst að Reykjavíkurflugvöllur mun þjóna sínu hlutverki næstu áratugina, það liggur í augum uppi.“

Ég auðvitað get ekki annað en fagnað þessari yfirlýsingu hæstv. ráðherra. Síðar segir hæstv. ráðherra í tengslum við skýrsluna og aðrar ákvarðanir:

„Nei, ég ætla að bíða eftir skýrslunni. Þegar hún kemur verður verða menn líka að svara spurningunni: Er Reykjavíkurflugvöllur kannski allt í lagi?“

Og svarið við þeirri spurningu er auðvitað augljóst: Reykjavíkurflugvöllur er frábær þar sem hann er og ætti að vera þar til allrar framtíðar, alla vega mjög langrar.

Það sem mig langar að spyrja hæstv. ráðherra um í þessu samhengi er aðstaða Reykjavíkurflugvallar. Nú hefur verið þrengt mjög að vellinum á undanförnum árum og sérstaklega hafa flugmálayfirvöld og flugmenn haft áhyggjur af fyrirhugaðri byggð í Nýja-Skerjafirði sem er talið að hafi umtalsverð áhrif á flugskilyrði vallarins. Það var unnin skýrsla sem leiddi það út að hægt væri að fara í mótvægisaðgerðir en þær eru helstar að lækka nýtingarhlutfall vallarins, hafa hann lokaðan oftar. Því hafa menn áhyggjur af því að flugvöllurinn verði sleginn af með tæknilegu rothöggi úr því að borgaryfirvöld hafa ekki náð sínu fram með þeim hætti sem reynt hefur verið. Þess vegna langar mig að spyrja hæstv. ráðherra: Hvað er að frétta af byggð í Nýja-Skerjafirði? Þó að hún sé auðvitað á forsendum Reykjavíkurborgar hefur ráðherra stigið inn í það mál á fyrri stigum og í ljósi þess að nú hefur ráðherra lýst því yfir að flugvöllurinn verði þarna til næstu áratuga hið minnsta þá skiptir gríðarlegu máli að þetta liggi ljóst fyrir og að það sé þá gripið inn í með þeim hætti að gagn sé af til að verja flugrekstraröryggi og rekstrarskilyrði vallarins.