154. löggjafarþing — 63. fundur,  1. feb. 2024.

undirbúningur og fjármögnun nýs fangelsis.

[10:56]
Horfa

Dagbjört Hákonardóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Fangelsismál á Íslandi fá um þessar mundir verðskuldaða athygli og það er ekki að ástæðulausu. Fangelsin okkar hafa sætt niðurskurði í 21 ár og hefur sú flata aðhaldskrafa lengst af verið í boði Sjálfstæðisflokksins. Við sjáum ekki fram á að nýtt fangelsi rísi fyrr en í fyrsta lagi eftir fimm ár. Athugum samt að þetta hús á eftir að teikna. Hæstv. dómsmálaráðherra hefur sagst hafa eyrnamerkt talsvert fé á þessu ári í fangelsismálin, um 250 milljónir til Fangelsismálastofnunar og 80 milljónir í starfsþjálfun fangavarða sérstaklega. Í lok síðasta árs vakti fangelsismálastjóri þó athygli á 300 millj. kr. fjárþörf til að unnt væri að brúa það sem upp á vantar í rekstri fangelsa á Íslandi. Ég vek líka athygli á því að fjármunirnir geta ekki aðeins og eingöngu farið í nýja steinsteypu. Umbóta er verulega þörf í rekstri fangelsa núna og það þarf að bregðast við ástandinu í öllum fangelsum landsins því að það er svo langt því frá aðeins þörf á því að bæta aðstæður á Litla-Hrauni.

Ég spyr því hæstv. fjármálaráðherra: Hefur fjármálaráðuneytið hafið undirbúning að byggingu nýs fangelsis í samstarfi við dómsmálaráðuneytið? Eigum við eftir að sjá fjármálaráðuneytið vinna að því að brúa bilið varðandi þá fjárþörf sem Fangelsismálastofnun stendur óumflýjanlega frammi fyrir á þessu ári og þeim næstu, samhliða uppbyggingu á nýju fangelsi? Telur fjármálaráðherra það forgangsatriði að tryggja mönnun innan veggja fangelsa svo tryggt verði að allir þeir aðilar sem dæmdir hafa verið til fangelsisvistar af dómstólum landsins geti hafið afplánun innan eðlilegs tíma? Eða munum við sjá fram á það að Fangelsismálastofnun komist aftur í öngstræti í árslok líkt og hin fyrri ár, sem þingið þarf svo að bjarga á síðustu stundu?