154. löggjafarþing — 63. fundur,  1. feb. 2024.

fjáraukalög 2024.

626. mál
[11:28]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að skýra þau orð mín að þegar ég segi að húsnæðisvandi sé leystur þá er ég að vísa í stóra verkefnið gagnvart Grindvíkingum og að þeim sé gert kleift að fjárfesta á nýjum stað og gera sínar ráðstafanir. Þar er ég að tala um þann afmarkaða húsnæðisvanda. Ég er ekki að fullyrða að við verðum búin að leysa húsnæðisvandann í íslensku samfélagi innan einhverra missera, enda er það viðvarandi verkefni sem öll lönd í kringum okkur eru sömuleiðis að glíma við og er mjög flókið samspil varðandi hvaða áhrif mismunandi aðgerðir hafa. Ég geri ráð fyrir að við hv. þingmaður séum kannski ekki að öllu leyti sammála um hvaða leiðir eru skynsamlegastar þar en við erum sammála um að gera það sem þarf fyrir þau sem eru núna í millibilsástandi. Þess vegna erum við að nýta þennan ramma. Mér finnst mikilvægt að við aðskiljum það neyðarástand sem þarna skapast frá almenna húsnæðiskerfinu, húsnæðislausnir og inngrip ríkisins í því til að reyna að leysa það mál. En við vitum líka að það er að hægja á fólksfjölgun til landsins. Við erum ekki orðin 400.000 eins og við héldum í smástund, gaman að segja frá því, sem setur auðvitað ákveðin önnur verkefni í annað samhengi, þ.e. til að mynda fólksfjölgun, áskoranir á húsnæðismarkaði, fjölda þeirra sem þar er. Í því samhengi er verkefnið sem snýr að Grindvíkingum vel viðráðanlegt. En það breytir ekki því að við ættum að nýta þá stöðu sem upp er komin í að taka frekari ákvarðanir til þess að hafa jákvæð áhrif á framboðshlið. Þar eru ýmsar leiðir færar sem ég myndi vilja að markaðurinn leysti fyrst og síðast. Þar er bæði hægt að einfalda allt regluverk og svo eru uppi hugmyndir um að sveitarfélög stígi fram og skipuleggi íbúðir sem geta verið fyrir Grindvíkinga eða aðra.