154. löggjafarþing — 63. fundur,  1. feb. 2024.

störf Norrænu ráðherranefndarinnar 2023.

643. mál
[11:44]
Horfa

ráðherra norrænna samstarfsmála (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir skýrslu samstarfsráðherra Norðurlanda um störf Norrænu ráðherranefndarinnar árið 2023. Skýrslan nær yfir það samstarf ráðherra og ráðuneyta sem tengjast Norrænu ráðherranefndinni og er formlega bundið í norrænum samningum. Þá er í skýrslunni einnig gerð grein fyrir norrænu samstarfi forsætisráðherra, starfsemi á vettvangi samstarfsráðherra Norðurlanda, auk fleiri atriða. Löng hefð er fyrir því að skýrsla samstarfsráðherra sé unnin í samvinnu allra þeirra fagráðuneyta sem taka þátt í norrænu samstarfi á vettvangi Norrænu ráðherranefndarinnar. Svo var einnig að þessu sinni en ritstjórn var í höndum Norðurlandadeildar utanríkisráðuneytis. Skýrslan í ár er með nokkru öðru sniði en hin fyrri ár. Í ár er í hefðbundnu þingskjali að finna stutta samantekt skýrslunnar, en skýrslan sjálf er aðgengileg í gegnum hlekk í þingskjalinu, auk þess sem prentuðu eintaki var dreift í pósthólf þingmanna.

Frú forseti. Árið 2023 var annasamt í norrænu samstarfi. Ísland gegndi formennsku og var því í forsvari fyrir samstarfið á árinu sem var að líða. Yfirskrift formennskuáætlunar Íslands var ,,Norðurlönd – afl til friðar.“ Þar voru áherslur Íslands markaðar í samræmi við framtíðarsýn Norðurlandanna til ársins 2030 um að Norðurlöndin verði sjálfbærasta og samþættasta svæði heims árið 2030, með áherslumálin þrjú um græn, samkeppnishæf og félagslega sjálfbær Norðurlönd. Einnig var lögð áhersla á frið í formennskuáætluninni og vestnorrænt samstarf. Ísland setti í krafti formennskunnar mark sitt á áherslur og samstarf við hin norrænu löndin. Formennskan var viðamikið og mikilvægt verkefni sem snerti flesta ráðherra og öll ráðuneyti í Stjórnarráði Íslands.

Áður en lengra er haldið vil ég rifja upp hér að stefna um framtíðarsýn til ársins 2030 var samþykkt á sumarfundi forsætisráðherra Norðurlanda árið 2019, í formennskutíð Íslands, og nefnist í daglegu tali framtíðarsýn okkar 2030. Í kjölfarið var síðan samþykkt framkvæmdaáætlun sem gildir fyrir árin 2021–2024, með áherslusviðin þrjú sem áður voru nefnd; græn, samkeppnishæf og félagslega sjálfbær Norðurlönd. Áherslur Íslands á formennskuárinu voru greindar niður í 40 verkefni. Góður árangur náðist á árinu við að ljúka meginþorra þessara áhersluverkefna. Ég get stoltur sagt frá því, virðulegi forseti, að öllum þessum verkefnum var ýtt úr vör. Miklum meiri hluta þeirra telst lokið, en af 40 verkefnum teljast 29 þeirra vera lokið. Hin sem eftir eru, eru ýmist vel á veg komin, átta talsins, eða teljast hafin, þrjú talsins. Nánar er fjallað um þetta í 7. kafla skýrslunnar í fylgiskjalinu „Staða og framgangur áherslna í formennskuáætlun við lok formennsku.“

Frú forseti. Í skýrslunni sem hér liggur fyrir er einkum leitast við að bregða ljósi á þau mál sem voru efst á baugi í norrænu samstarfi á árinu, en einnig mál sem Ísland lagði áherslu á, sem og verkefni sem Ísland beitti sér fyrir á formennskuárinu. Þar sem norrænt samstarf á vettvangi Norrænu ráðherranefndarinnar er yfirgripsmikið og fjölbreytt getur svona skýrsla seint orðið tæmandi, hvað þá svona framsaga. En ég vil hér einkum nefna þrjú atriði, sem lögð var áhersla á og Ísland vann að á formennskuárinu.

Fyrsta málið sem ég vil nefna er vinna við nýja samstarfsáætlun 2025–2030. Það kom í hlut Íslands sem formennskuríkis að leiða umfangsmikla vinnu að efnistökum nýrrar samstarfsáætlunar Norrænu ráðherranefndarinnar fyrir árin 2025–2030 á grunni framtíðarsýnarinnar til 2030. Sú vinna heldur áfram á árinu 2024 undir forystu Svíþjóðar. Þessi vinna kallaði á aukið samstarf á formennskuárinu við Norðurlandaráð, norrænar stofnanir, félagasamtök og almenning, sem Ísland sem formennskuríki lagði ríka áherslu á. Vinnan markast af umræðu um pólitísk forgangsmál, ásamt yfirsýn og endurmati á þeim verkefnum sem unnin hafa verið á undanförnum árum. Þessi vinna er vel á veg komin og hefur að mínu mati gengið vel.

Virðulegi forseti. Í öðru lagi vil ég nefna atriði sem tengist hinu fyrra að nokkru leyti, og það er pólitískt samtal og samráð við Norðurlandaráð og frjáls félagasamtök. Á formennskuárinu lagði Ísland mikið upp úr góðu samstarfi við aðra aðila í norrænu samstarfi, sérstaklega Norðurlandaráð en einnig frjáls félagasamtök. Náið samstarf var við formennskuríkið í Norðurlandaráði á árinu, Noreg, meðal annars vegna samningaviðræðna um fjárhagsáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar fyrir árið 2024, og hittumst við reglulega á árinu 2023 og reyndar á árinu 2022 líka. Þá var þétt samstarf við forsætisnefnd og aðrar nefndir Norðurlandaráðs um áherslur fyrir samstarfsáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar 2025–2030. Norðurlandaráð og samstarfsnet borgaralegra samtaka, Nordic Civ, sendu innlegg í vinnu Norrænu ráðherranefndarinnar varðandi nýja samstarfsáætlun með áhersluatriðum sínum í byrjun september 2023. Innleggin eru til meðferðar í fagráðherranefndum Norrænu ráðherranefndarinnar. Að mínu mati er dýrmætt að fá virka aðkomu Norðurlandaráðs og frjálsra félagasamtaka að þeirri yfirgripsmiklu stefnumótunarvinnu sem nú stendur yfir þar sem allir aðilar í norrænni samvinnu hafa mikilvægum hlutverkum að gegna og mikilvægt að það sé virkt samtal í gangi á milli þeirra.

Virðulegi forseti. Í þriðja lagi vil ég nefna vinnu við áherslur framtíðarsýnar okkar 2030 á formennskuárinu. Eins og sú skýrsla sem hér liggur til grundvallar umræðunni sýnir var unnið að mörgum málum á árinu sem miða að framkvæmd sameiginlegrar framtíðarsýnar okkar á Norðurlöndum fyrir árið 2030. Mörg þessara mála tengjast málaflokkum sem við ræðum reglulega hér í þingsölum Alþingis. Það er því styrkur að eiga einnig umræðu, vinnu og speglun um þau á norrænum vettvangi.

Ég vil hér á eftir nefna nokkur verkefni, einungis til að gefa innsýn í þann fjölbreytileika verkefna og málaflokka sem unnið er í og þá grósku sem er í starfinu. Ég vil taka fram að þetta er ekki tæmandi talning.

Varðandi fyrsta áhersluatriði framtíðarsýnarinnar, græn Norðurlönd, þá voru stoðir treystar á árinu fyrir áframhaldandi samstarf um sjálfbæra þróun samfélaga okkar. Áhersla var lögð á að deila með öðrum reynslu og góðum árangri í loftslagsmálum, málefnum hafsins og við innleiðingu á hringrásarhagkerfinu og efla þannig samstarf á þessum sviðum. Ísland lagði einnig sérstaka áherslu á að virkja alla samfélagshópa á þessari grænu vegferð. Meðal verkefna á árinu má nefna eftirfarandi: Aðlögun að loftslagsbreytingum, réttlát umskipti, kolefnishlutleysi, föngun og geymslu kolefnis, græna umbreytingu í sjávarútvegi og við nýtingu á auðlindum hafsins, orkuskipti, sérlega þátt endurnýjanlegrar orku í auknu orkuöryggi, réttlát umskipti á vinnumarkaði með þátttöku aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda o.fl.

Varðandi annað áhersluatriði framtíðarsýnarinnar, samkeppnishæf Norðurlönd, þá er áhersla Norðurlanda á grænan hagvöxt ásamt þekkingu og nýsköpun, lykill að aukinni samkeppnishæfni svæðisins. Í formennskuáætlun Íslands var lögð áhersla á að allir íbúar Norðurlandanna ættu kost á að vera virkir þátttakendur í stafrænni þróun og gætu nýtt möguleika hennar. Sameiginlegur vinnumarkaður, mikill mannauður Norðurlanda og frjáls för fólks og fyrirtækja um svæðið mun gera Norðurlöndum kleift að takast á við margvíslegar breytingar og áskoranir komandi ára. Meðal verkefna á árinu má nefna eftirfarandi: Þekkingu og nýsköpun og möguleika sem felast í stafrænni þróun, aðgangi rannsakenda að norrænum heilbrigðisgögnum, aðkomu ungs fólks að opinberri umræðu, áhrif heimsfaraldurs á vinnumarkað, verðmætamat starfa og kynskiptan vinnumarkaður, menningar- og listalíf var styrkt og þróað með aukinni nýsköpun og tengslum listafólks, afnám norrænna stjórnsýsluhindrana, atvinnuþátttaka allra hópa í samfélaginu o.fl.

Varðandi þriðja áhersluatriði framtíðarsýnarinnar, félagslega sjálfbær Norðurlönd, tengja grunngildin, sem eru jöfnuður, félagsleg velferð, traust, jafnrétti og lýðræðisvitund, norrænu löndin órofa böndum og á þeim byggjast samfélög okkar. Á formennskuárinu setti Ísland m.a. í forgrunn norrænt samstarf í heilbrigðismálum, jafnrétti og réttindi hinsegin fólks, nýjar stafrænar lausnir sem auka aðgengi fólks og samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða þegar grænu umskiptin eiga sér stað. Meðal verkefna á árinu má nefna bætta lýð- og geðheilsu, forvarnir, fyrirbyggjandi og snemmtækar aðgerðir og þróa áfram norrænt samstarf í heilbrigðismálum í þeim tilgangi að efla heilsu allra. Þá má nefna samþættingu félags- og heilbrigðisþjónustu svo eldra fólk lifi lengur sjálfstæðu lífi, bættan heilsuviðbúnað, nýjar rafrænar lausnir sem verði aðgengilegar fötluðu fólki, að greina framtíðaráskoranir í vinnuvernd, að móta sameiginlega norræna stefnu um stafræna máltækni, gagnkvæman tungumálaskilning íbúa Norðurlanda, barnvæn samfélög, jafnrétti og réttindi hinsegin fólks, með áherslu á trans fólk og intersex fólk.

Virðulegi forseti. Síðast en ekki síst voru áherslur á formennskuárinu sem lutu að friði og ég vil nefna þá áherslu sérstaklega. Í formennskutíð Íslands var lögð áhersla á að varpa ljósi á mikilvægi friðar sem undirstöðu mannréttinda, velferðar, kvenfrelsis og umhverfis- og loftslagsverndar. Áherslan á frið réðst ekki síst af innrás Rússlands í Úkraínu veturinn 2022, á sama tíma og við vorum að hefja undirbúning að formennskuáætlun okkar. Friður gegnir lykilhlutverki í að gera Norðurlöndin græn, samkeppnishæf og félagslega sjálfbær. Til að koma áherslunni á frið til framkvæmdar í formennskuáætluninni var haldin alþjóðleg friðarráðstefna í Hörpu í október 2023, sem var einn af hápunktum formennskuársins, og bar hún yfirskriftina, með leyfi forseta: The Imagine Forum: Nordic Solidarity for Peace. Ráðstefnan var sérstakt frumkvæði Íslands og var haldin í samvinnu við Höfða friðarsetur og styrkt af m.a. Norrænu ráðherranefndinni, og naut einnig stuðnings frá norrænum friðarsetrum. Markmiðið tókst, að leiða saman öflugan hóp skapandi hugsuða til að taka þátt í samtali milli kynslóða um hvernig efla mætti norrænt samstarf í þágu friðar. Ráðstefnan var vel sótt en einnig fylgdust margir með henni í streymi og eru upptökur af ráðstefnunni aðgengilegar á heimasíðu Höfða friðarseturs hjá Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands. Og mér þótti vænt um að sjá íslensku formennskuna í Norðurlandaráði taka þetta þema áfram og hafa frið, ásamt öryggi, í yfirskrift formennskuáætlunar sinnar í Norðurlandaráði á árinu 2024.

Virðulegi forseti. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar frá nóvember 2021 er kveðið á um að öflugt norrænt samstarf verði áfram grundvallarþáttur í alþjóðlegu samstarfi Íslands. Mikilvægt er að hlúa að og styrkja norrænt samstarf. Ég hef lagt áherslu á að við Íslendingar séum virkir þátttakendur og miðlum þekkingu og reynslu Íslands, á sama tíma og við njótum þess sama frá hinum norrænu löndunum og erum hluti af stærri heild. Norrænt samstarf er okkur á Íslandi bæði mikilvægt og dýrmætt og ég hef ekki orðið annars áskynja en að þau deili einnig þeirri sýn. Norðurlönd eru sterkari saman.

Virðulegi forseti. Það er skoðun mín að árið í fyrra, 2023, hafi verið gott fyrir norræna samvinnu, og mér finnst formennska Íslands í Norrænu ráðherranefndinni hafa gengið vel. Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka öllum þeim fjölmörgu sem lögðu hönd á plóg í þeirri vinnu, óeigingjarnri og árangursríkri vinnu. Ég vil þakka ráðherrum í ríkisstjórninni fyrir vel unnin störf við að leiða pólitíska samstarfið á fagsviðum sínum og starfsfólki ráðuneytanna sem sitja fyrir Íslands hönd í embættismannanefndum Norrænu ráðherranefndarinnar. Þá vil ég einnig þakka öðrum sem komu að íslensku formennskunni með einum eða öðrum hætti og þeim sem sitja í stjórnum norrænna stofnana fyrir Íslands hönd eða í ýmsum öðrum nefndum og ráðum á norrænum vettvangi. Ég vil að lokum einnig fá að þakka þingmönnum í Íslandsdeild Norðurlandaráðs fyrir afskaplega gott samstarf á síðasta ári þegar Ísland fór með formennsku í Norrænu ráðherranefndinni. Ég vil að sama skapi óska Íslandsdeildinni, með forseta og varaforseta Norðurlandaráðs í broddi fylkingar, velfarnaðar í formennsku Norðurlandaráðs á þessu ári og hlakka auðvitað til enn frekara samstarfs á árinu. Þá vil ég einnig þakka Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins fyrir gott samstarf á árinu, Það er að mínu mati mikilvægt þegar Ísland er í formennsku í Norrænu ráðherranefndinni að við höldum vestnorrænum áherslum á lofti. Við höfum sameiginlega það mikilvæga verkefni að vinna að framgangi norrænnar samvinnu á Íslandi, og mér liggur við að segja stundum vitundarvakningu, til að vekja athygli á því góða starfi sem verið er að vinna, samfélögum okkar til heilla.

Virðulegi forseti. Það er von mín að skýrsla sú sem hér er til umfjöllunar verði gott innlegg inn í þá umræðu.