154. löggjafarþing — 63. fundur,  1. feb. 2024.

norrænt samstarf 2023.

625. mál
[13:47]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Já, því miður er það staðreynd að það horfir mjög ófriðlega í heiminum akkúrat núna með stríði í Evrópu en einnig með sífellt auknum átökum víðs vegar um heiminn og eins versnandi stöðu mannréttinda á mjög mörgum stöðum. Mér finnst mikilvægt að við sem þjóð og partur af Norðurlöndunum komum inn í þá umræðu af ábyrgð. Við erum sem svæði gríðarlega rík samanborið við aðra heimshluta og búum við mun betri lífskjör en nálega allir aðrir heimshlutar. Mér finnst þess vegna skipta máli að við nálgumst málin þannig að við leggjum eitthvað til uppbyggingar á öðrum svæðum en stuðlum ekki að frekara niðurrifi, eins og er mín bjargfasta skoðun að hernaður geri alltaf. En ég get tekið undir það að umræðan um öryggis- og varnarmál mætti oft vera meiri og mætti vera dýpri. En að sama skapi held ég líka að sú umræða eigi að snúast um hvernig við komum á friðsamlegum lausnum. Þar getum við t.d. lært ýmislegt af hinum Norðurlöndunum sem hafa til að mynda að bjóða upp á nám í friðarfræðum og hvernig eigi að leysa úr erfiðum deilum með samningaumræðu.