154. löggjafarþing — 63. fundur,  1. feb. 2024.

norðurskautsmál 2023.

630. mál
[14:32]
Horfa

Flm. (Líneik Anna Sævarsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir ársskýrslu þingmannaráðstefnunnar um norðurskautsmál fyrir árið 2023 sem liggur frammi á þskj. 940 og er 630. mál. Ég mun stikla á stóru um starfið á síðasta ári en í ársskýrslu Íslandsdeildar fyrir árið 2023 eru störfum þingmannanefndarinnar og skipan hennar gerð ítarlegri skil.

Þingmannaráðstefnan um norðurskautsmál er umræðuvettvangur þingmanna frá ríkjum við norðurskaut sem og fulltrúa ríkisstjórna, háskólastofnana og félagasamtaka sem láta sig málefni norðursins varða. Fyrsta ráðstefna þingmanna og fulltrúa norðurskautssvæða var haldin í Reykjavík árið 1993 og var hún undanfari formlegs samstarfs þingmanna, þ.e. þingmannanefndar um norðurskautsmál sem formlega var sett á laggirnar árið 1994. Meginviðfangsefni nefndarinnar eru að skipuleggja þingmannaráðstefnuna sem haldin er á tveggja ára fresti og fylgja eftir samþykktum hennar.

Ef ég umorða þetta aðeins þá er það að undirbúa ráðstefnuna það að draga saman efni og viðfangsefni til að fjalla um, draga út áherslumál í samþykktir ráðstefnu og fylgja síðan þeim samþykktum eftir gagnvart framkvæmdavaldi og Norðurskautsráði, að einhverju leyti framkvæmdarvaldi í heimalöndum viðkomandi. Auk þess fylgist þingmannanefndin grannt með störfum Norðurskautsráðsins.

Þingmannanefndin fundar að jafnaði tvisvar til þrisvar á ári, þ.e. fulltrúar frá aðildarríkjunum, einn þingmaður frá hverju aðildarríki situr í nefndinni. Þjóðþing Bandaríkjanna, Kanada, Rússlands og Norðurlanda eiga fulltrúa í nefndinni og auk þess á Evrópuþingið fastan fulltrúa. Nokkur samtök þingmanna, frumbyggja og þjóðarbrota á norðurslóðum eiga fasta áheyrnarfulltrúa á fundum nefndarinnar með rétt til þátttöku í umræðum. Það á t.d. við um Norðurlandaráð og Vestnorræna ráðið, þar eru samstarfsfletir.

Almennt snúast helstu verkefni í norðurskautssamstarfi um sjálfbærra þróun og umhverfismál. Einnig hefur sérstök áhersla verið lögð á varðveislu menningararfleifðar og menningar þeirra þjóðflokka sem byggja landsvæðin við norðurskaut, sem og aukna efnahagslega og félagslega velferð íbúa norðursins. Rík áhersla lögð á að halda norðurslóðum sem lágspennusvæði í alþjóðasamskiptum. Þá hefur þingmannanefndin á undanförnum árum lagt sérstakan metnað í að eiga frumkvæði að margs konar verkefnum sem hægt er að leggja fyrir Norðurskautsráðið til framkvæmdar. Jafnvel þótt samstarf norðurskautsríkja eigi sér fremur stutta sögu hefur það leitt til margvíslegra sameiginlegra verkefna og stofnana sem sinna svo m.a. eftirliti og mati á umhverfi norðurskautsins. Eftirlit með og mat á umhverfi norðurskautssvæðanna hefur frá byrjun verið forangsverkefni ráðsins. Fjölmargar vandaðar vísindarannsóknir hafa verið unnar á vegum vinnuhópa Norðurskautsráðsins, m.a. um mengunarhættu, áhrif mengunar á vistkerfi norðurslóða og varðveislu líffræðilegs fjölbreytileika.

Skipan Íslandsdeildar árið 2023 var eins og hér segir: Sú sem hér stendur er formaður Íslandsdeildar, Eyjólfur Ármannsson er varaformaður og þá situr Berglind Ósk Guðmundsdóttir í deildinni. Ritari Íslandsdeildar er Arna Gerður Bang.

Á vettvangi þingmannanefndar um norðurskautsmál bar á árinu 2023 hæst umræðu um ólögmæta innrás Rússa í Úkraínu og með hvaða hætti þingmenn gætu starfað saman án þátttöku Rússa. Þá var að sjálfsögðu baráttan gegn loftslagsbreytingum eitt aðalviðfangsefnið. Til upprifjunar þá sendi þingmannanefndin frá sér yfirlýsingu 8. mars 2022 varðandi innrásina í Úkraínu þar sem kemur fram að friðsamlegt samstarf á norðurslóðum sé nauðsynleg forsenda fyrir starfi þingmannanefndar um norðurskautsmál. Tilefnislaus innrás Rússa í Úkraínu hafi skapað nýjan og alvarlegan veruleika í alþjóðasamfélaginu sem kalli á endurskoðun diplómatískra samskipta. Þess vegna geri þingmannanefnd um norðurskautsmál tímabundið hlé á starfi sínu en fylgist áfram náið með þróun mála á svæðinu, með friðsamlega hagsmuni ríkja og íbúa norðurslóða í huga.

Rússland studdi ekki yfirlýsinguna og lýsti yfir óánægju með ákvörðun nefndarinnar sem þeir töldu brjóta gegn eigin starfsreglum. Nefndin komst aftur á móti að þeirri niðurstöðu í framhaldinu að samkvæmt starfsreglum nefndarinnar gætu nefndarmenn fundað að vild án þátttöku Rússa. Nefndarmenn voru sammála um að samstarf þingmanna á norðurslóðum og í Norðurskautsráðinu gæti ekki haldið áfram með hefðbundnu sniði eftir innrás Rússlands í Úkraínu en að þrátt fyrir stríðið og afleiðingar þess væri nauðsynlegt að halda áfram að vinna að mikilvægum málum á svæðinu eins og baráttunni gegn loftslagsbreytingum, bættum lífskjörum og réttindum frumbyggja og sjálfbærri þróun. Því var tekin ákvörðun í ársbyrjun um að halda starfi þingmannanefndarinnar áfram án þátttöku Rússa og hélt nefndin tvo fundi á árinu, annan í Washington á vordögum og hinn á Egilsstöðum í október. Margir gátu nýtt sömu ferðina til Íslands til að sækja Hringborð norðurslóða.

Formennskuáætlun Noregs í Norðurskautsráðinu var á dagskrá funda nefndarinnar enda aðstæður til starfsins breyttar í ráðinu eftir innrás Rússa í Úkraínu og mikil áskorun að vinna að framgangi mála og verkefna við þessar aðstæður. Noregur tók við formennsku af Rússum í maí 2023. Í ágúst náðu aðildarríki ráðsins samkomulagi um fyrirkomulag til að hefja aftur samstarf á vettvangi vinnuhópa ráðsins sem legið hafði niðri vegna innrásarinnar. Það er rétt að geta þess að unnið hefur verið að ákveðnum verkefnum á vegum vinnuhópanna þó að samstarfið hafi verið óvirkt. Nýju viðmiðunarreglurnar byggjast á skriflegum samskiptum og það gerir vinnuhópunum mögulegt að taka ákvarðanir og halda áfram að vinna.

Nefndin lagði að venju ríka áherslu á umhverfismál og baráttuna gegn loftslagsbreytingum. Loftslagsbreytingar eru mikil vá á norðurslóðum og var það rætt t.d. á fundinum í Washington hvernig draga mætti úr neikvæðum áhrifum á samfélögin, á gróður, en það var mikið rætt um jarðvegselda sem eru mikil vá, og hitastig hafsvæða. Rétt er að minna á að loftslagsbreytingar eru tvöfalt hraðari á svæðinu en annars staðar í heiminum.

Þá var skipulag næstu þingmannaráðstefnu töluvert rætt en áætlað er að hún fari fram í Kiruna í Svíþjóð í mars 2024. Tekin var ákvörðun um þrjú meginþemu á ráðstefnunni sem verði í fyrsta lagi öryggi og viðbúnaður á norðurslóðum með áherslu á að það hvernig tryggja má að norðurslóðir verði áfram lágspennusvæði þrátt fyrir aukna spennu á svæðinu. Í öðru lagi verður fjallað um rannsóknir og fræðslu með áherslu á loftslagsmál, meðhöndlun úrgangs og hringrásarhagkerfið. Í þriðja lagi verður rætt um atvinnulífið, atvinnutækifæri og leiðir til að námavinnsla verði sem sjálfbærust. Það verður fyrsta formlega ráðstefnan þar sem nefndarmenn hittast síðan 2018. Af fleiri málum sem voru ofarlega á baugi má nefna málefni frumbyggja, sjálfbæra þróun, orkuskipti og matvælaöryggi. Að auki fóru fram umræður um stefnur aðildarríkjanna og Evrópusambandsins í málefnum norðurslóða og hvernig stuðla megi að áframhaldandi stöðugleika á svæðinu.

Eins og áður sagði er gerð nánari grein fyrir því sem fram fór á fundum nefndarinnar í fylgiskjölum með skýrslu þeirri sem hér er mælt fyrir.

Að lokum vil ég þakka fulltrúum Íslandsdeildar fyrir gott samstarf á þessum vettvangi. Að svo mæltu læt ég umfjöllun minni um skýrslu Íslandsdeildar þingmannaráðstefnunnar um norðurskautsmál fyrir árið 2023 lokið.