154. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2024.

ákvörðun um frystingu fjármuna til UNRWA.

[15:05]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Ísland er vissulega ekki stærsti leikandinn á alþjóðasviðinu en þrátt fyrir smæð höfum við sýnt að við getum haft áhrif. Við höfum rödd og það er mikilvægt að hún sé skýr, tali ávallt í þágu friðar, jafnréttis og mannúðar. Þingi og stjórnvöldum hefur iðulega auðnast að tala einni röddu í erfiðum utanríkismálum og sá samhljómur er mikilvægur. Upp á síðkastið hefur mér þó fundist hann vera að rakna upp. Það var óheppilegt þegar utanríkisráðherra ákvað hjásetu í málefnum Gaza á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna, þvert á vilja þingsins og án samráðs við ríkisstjórn, enda spratt upp úr því furðulegasta orðaskak milli stjórnarflokkanna sem var ekki til að auka traust á utanríkisstefnu Íslands. Þetta endurtók sig þegar utanríkisráðherra tilkynnti um frystingu fjármuna til UNRWA, flóttamannahjálpar Palestínu, vegna alvarlegra ásakana á hendur örfárra starfsmanna samtakanna, aftur án samráðs við ríkisstjórn og án samráðs við þing, og aftur er ríkisstjórnin klofin í þessu mikilvæga máli. Þetta ákvað ráðherra einn skömmu eftir að þingið hafði samþykkt samhljóða ályktun allra í utanríkismálanefnd en í henni var hvatt til aukinnar mannúðaraðstoðar á Gaza. Þetta ákvað ráðherra á sama tíma og milljónir íbúa á Gaza búa við mannúðarkrísu og hungursneyð á svæðinu blasir við í lok febrúar ef framlög skila sér ekki til UNRWA.

Ísland styður tveggja ríkja lausn þar sem Ísraelsmenn og Palestínumenn eiga réttmæta kröfu til eðlilegs lífs. Það verður illa séð að það verði mögulegt ef alþjóðasamfélagið lætur eyðileggingu á öllum innviðum óáreitta og palestínska þjóðin er hrakin á flótta og rekin á vergang. Er hæstv. forsætisráðherra sammála ákvörðun utanríkisráðherra? Hefur þessi ákvörðun verið rædd í ríkisstjórn og er ráðherra tilbúinn til að beita sér fyrir því að þessi ákvörðun verði endurskoðuð þar sem hún nýtur ekki stuðnings hér í þinginu?