154. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2024.

orð ráðherra um frumvarp um hagsmunafulltrúa eldra fólks.

[15:54]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegur forseti. 13. júní 2021 samþykkti Alþingi Íslendinga ályktun um hagsmunafulltrúa eldra fólks. Þessi ályktun var samþykkt einróma af Alþingi. Alþingi ályktaði að fela félags- og barnamálaráðherra að stofna starfshóp hagsmunaaðila auk starfsfólks ráðuneytisins sem semja ætti frumvarp til laga um hagsmunafulltrúa eldra fólks. Starfshópurinn átti að gera tvennt; hvar yrði slíku embætti best fyrir komið og hvert ætti umfang þess að vera. Það átti að skila ráðherranum frumvarpi um málið fyrir 1. apríl 2022. Ráðherrann hefur ekki gert þetta. Ráðherrann á að framkvæma vilja Alþingis. Það er þingræði. Það var enginn að spyrja hæstv. ráðherra álits á því hvort það ætti að gera þetta eða ekki, hvort þetta væri ekki hentugt eða skynsamlegt, hann átti bara að skila frumvarpinu. Það er það sem hann á að gera (Forseti hringir.) og það er það sem við viljum. Og það að spyrja um það er ekki popúlismi. (Forseti hringir.) Þetta er algjör vanvirðing við þingræðið og ekkert annað. Ég skora á forseta Alþingis að krefja hæstv. ráðherra um nefnt frumvarp. Við bíðum spennt eftir að fá þetta frumvarp sem átti að skila fyrir tæpum tveimur árum síðan. Hvar er frumvarpið?