154. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2024.

Almannavarnir og áfallaþol Íslands.

[16:18]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka framsögumanni fyrir þessa umræðu sem er ekki hægt að taka án þess að þakka í leiðinni björgunarsveitarmönnum og viðbragðsaðilum fyrir magnaða seiglu og dugnað í þeim störfum sem þeir hafa sinnt í Grindavík að undanförnu. Þrátt fyrir að álagið hafi verið yfir öllum mörkum í Grindavík koma þar að margar sveitir og mikill fjöldi björgunarmanna hefur staðið vaktina. Björgunarsveitir á Íslandi eru magnaðar í viðbragðinu og skipulagi en álagið er slíkt að ekki er hægt að stóla eingöngu á sjálfboðaliða eða að smáfyrirtæki standi undir launum þeirra dögum og vikum saman á ári hverju. Þar verður þingið að koma að. Við erum ótrúlega góðir, Íslendingar, fádæma útsjónarsamir og áræðnir þegar á reynir.

Virðulegur forseti. Við heyrðum það á sérfræðingum að áhættumat til langs og skamms tíma þarf að vinna fyrir öll svæði í landinu. Samkvæmt mínum upplýsingum hefur Veðurstofan unnið áhættumat frá 2012 og það liggur fyrir fyrir vestanverðan Reykjanesskaga og innviði í Vestmannaeyjum, aðeins brot af landsbyggðinni og landinu öllu. Í áhættumati þurfa öll gosbelti að vera undir svo við getum gert fyrirbyggjandi ráðstafanir víða um land. Ef við værum í þeirri stöðu hefðu varnargarðarnir í Grindavík verið byggðir í tíma án mikillar tímapressu og með minni kostnaði. Huga þarf að slíkum fyrirbyggjandi aðgerðum víða um land. Það er til fullnægjandi þekking í landinu varðandi áhættumat sem við þurfum að nýta okkur en okkur vantar fótgönguliða til að koma verkum í hús. Við gætum flutt út reynslu og þekkingu ef við hefðum til þess mannskap, er mér sagt. Margt af okkar besta fólki er komið á seinni hluta ferils síns og það þarf að huga að endurnýjun og vekja áhuga ungs fólks á mikilvægi jarðvísinda. Við verðum að auka þekkingu á öllum sviðum í umhverfi okkar, byggja upp þekkingargrunna og fá fleira fólk að verkefnum. Þar horfum við á jarðfræðinga, verkfræðinga, sálfræðinga í áfallahjálp, skipulagsfræðinga og sérfræðinga í skipulagningu almannavarna. Við þurfum allt þetta fólk svo að við búum í öruggara samfélagi, í húsum á öruggum svæðum. Lærum af sögunni sem endurtekur sig.

Virðulegur forseti. Hluti af styrkingu innviða í viðbragði vegna náttúruhamfara er styrking björgunarsveitanna, lögreglunnar, löggæslunnar og heilbrigðisþjónustunnar.