154. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2024.

Almannavarnir og áfallaþol Íslands.

[16:25]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Gísla Rafni Ólafssyni fyrir að óska eftir þessari mikilvægu umræðu en um leið endurspeglar hún fyrirhyggjuleysið sem hefur ríkt í þessum málaflokki allt of lengi. Að búa í landi þar sem allt getur gerst ætti að gera það að verkum að til væru verkferlar til að takast á við náttúruhamfarir af þeim toga sem við erum t.d. að upplifa í Grindavík. En því miður virðist staðan vera sú að samhæfingu skortir, fjármuni skortir og starfsfólkið sem þarf að vinna þessi mikilvægu störf vantar. Það liggur fyrir að almannavarnir hafa ekki mannaflann til að vinna allar þær viðbragðsáætlanir sem þörf er á. Hér er mikil þörf á ofanflóðavörnum, þörfin hefur verið kortlögð, við vitum hvað þarf og hvað það mun kosta. Samt er ekki nema kannski helmingur af skattinum sem er eyrnamerktur ofanflóðasjóði að skila sér í slíka uppbyggingu. Við vitum að staða ríkissjóðs er í járnum og við sjáum að ríkisstjórnin er ítrekað að brjóta sparibauk barnanna okkar, taka peninginn sem á að fara í ofanflóðavarnir til að greiða niður yfirdráttinn. Önnur birtingarmynd þess er þegar ekki var hægt að reisa varnargarða um Svartsengi og Grindavík án þess að leggja nýjan skatt á almenning.

Virðulegi forseti. Ég vil þó fá að láta í ljós virðingu mína fyrir því fólki sem hefur unnið hörðum höndum við að bjarga því sem bjargað verður í þeim hamförum sem dynja á okkar fólki í Grindavík. Það má ekki láta það gerast að fjármagn skorti til að takast á við verkefni sem þessi. Við þurfum sem þjóð að vera undirbúin fyrir áraun af þessu tagi og þar skiptir máli að búa í haginn.