154. löggjafarþing — 65. fundur,  5. feb. 2024.

áhættumat vegna hugsanlegra jarðhræringa og eldsumbrota.

637. mál
[17:11]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V):

Virðulegi forseti. Við Íslendingar erum að sigla inn í nýtt skeið óvissu af náttúrunnar hendi eins og við vitum. Þá er auðvitað ótrúlega dýrmætt að vera með öfluga vísindamenn sem geta varðað leiðina og gefið okkur vísbendingar um það hvar helstu áhættuþættirnir liggja og hvernig best sé að búa til raunhæf áform um framtíðaruppbyggingu á ýmsum svæðum sem liggja núna undir ákveðinni ógn. Óöryggið sem fylgir því að búa í harðbýlu landi þar sem náttúran ræður för getur verið mikil og eldgosahrinan núna á Reykjanesinu hefur sett mikilvægi þess að vera með langtímaplön og áætlanir um varnir á dagskrá.

Viðreisn leggur áherslu á að tekið sé á innviða- og öryggismálum heildstætt. Sumir hafa talað um okkur pínulítið sem lúða með langtímaplön og það getur vel verið að svo sé en við teljum mikilvægt að við þorum að horfa til lengri tíma, m.a. til að treysta öryggi fólks og reyna að ýta sem mestri óvissu út af borðinu. Tilfinning fólks er hins vegar þannig núna og hefur verið sú að ákveðin svæði fái athygli í ákveðinn tíma, skamman tíma oftar en ekki, og síðan tekur bara næsti atburður við. Ríkisstjórnir að okkar mati verða að geta haft augun á mörgum boltum í einu. Fólkið okkar um allt land, hvort sem það er fyrir vestan í snjóflóðahættunni eða austan í skriðu- og snjóflóðahættu eða hér á Reykjanesinu í stöðugum ótta vegna jarðskjálfta og eldhræringa, þarf að vita að við séum með ríkisstjórn sem horfir heildstætt á þetta.

Erfiðasta svæðið, segir Ármann Höskuldsson jarðfræðingur, í framtíðinni verður hugsanlega Hafnarfjörður. Hann segir, með leyfi forseta: „En kosturinn er sá að við erum búin að sjá hvernig þetta virkar og það þýðir að við getum farið að undirbúa og hanna og gera ráð fyrir því hvernig við bregðumst við ef eitthvað fer þar inn.“

Hann telur að það verði að fara að skoða að reisa m.a. eldgosavarnir í byggðunum vestast í Hafnarfirði og síðan þurfum við að skoða sérstaklega hvaða áhrif Brennisteinsfjalla- og Bláfjallakerfið hefur og hvað Krýsuvík og Eldvörpin segja okkur. Hann hefur varað við því að Krýsuvíkurkerfið sýni merki þess að það sé að vakna og það hafa fleiri vísindamenn gert. Á móti heyrum við líka, m.a. frá almannavörnum, að alveg frá árinu 2012 hafi verið í bígerð að búa til áhættumat fyrir þetta svæði, m.a. vegna eldfjalla. Það eru 12 ár síðan. Það eru fjögur ár eða ríflega þrjú ár síðan jarðskjálftahrinan við og um Grindavík byrjaði.

Við í Viðreisn teljum mikilvægt að það verði farið af stað og unnið þetta áhættumat. Ef það er byrjað þá er það frábært mál. Þá vil ég gjarnan fá að vita stöðuna og hvaða viðhorf hæstv. forsætisráðherra (Forseti hringir.) hefur m.a. í því að reyna að vinna þetta heildstætt fyrir Reykjanesið og síðan líka fyrir önnur svæði á landinu.