154. löggjafarþing — 65. fundur,  5. feb. 2024.

blóðgjafir.

207. mál
[17:58]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Andrési Inga Jónssyni fyrir þessa fyrirspurn en ég vil líka nota tækifærið og þakka honum fyrir að halda þessu máli gangandi og á lofti. Það er líka mikilvægt. Hv. þingmaður fór hér alveg ágætlega yfir þetta sögulega samhengi og hvað þetta hefur verið lengi í ferli og verið að koma alveg á næstunni. Það er alveg rétt sem hv. þingmaður fór hér yfir. Mér fannst líka gott að hv. þingmaður kom inn á hvað væri að frétta af vinnu við það að koma á þessari reglugerð og reglugerðarbreytingu, reglugerð nr. 441/2006 og viðaukum, um söfnun, meðferð, varðveislu og dreifingu blóðs, í því skyni að afnema mismunun sem blóðgjafar hafa sætt á grundvelli kynhneigðar.

Það er alveg rétt sem hv. þingmaður kom inn á, mér fannst hann orða það vel, um ónákvæmt orðalag og reglur sem urðu til í allt öðru rými við allt aðrar aðstæður. Maður getur kannski sýnt umburðarlyndi því þekkingarleysi og fordómum sem því fylgir. Ég stend alveg jafn keikur og í þessari ágætu umræðu sem hv. þingmaður vísaði til og hef ýtt á eftir því að við klárum þetta. Nú síðast í desember var mig farið að lengja eftir því að við næðum þessu fram. En þá var komið nokkuð gott kostnaðarmat á þetta og hvað þarf að gerast í samþættingu tölvukerfa og vegna kjarnsýrugreiningar og breytinga á húsnæði og það er komið vel á veg. Blóðbankinn, Landspítali, sóttvarnalæknir og ráðgjafarnefnd um fagleg málefni blóðbankaþjónustu hafa unnið að stefnumótun og innleiðingaráætlun og þetta hefur kannski verið svolítið í því ferli. Ég get alveg rakið það, ef ég man rétt, í sjö til níu ár, þegar þessi umræða alla vega byrjar og einhverjar þjóðir voru á undan okkur í þessu.

Ég bind vonir við að þessi reglugerð verði sett í samráðsgátt núna á allra næstu vikum, ég var að þrýsta á það í desember þegar kostnaðarmatið lá fyrir. Þá ættum við að geta séð hvernig hún lítur út. Kostnaðarmatið hefur dregist í samhengi við áhættugreiningu og hugmyndir um áhættugreiningu og áherslur ráðgjafarnefndar þar um. Ég á alveg von á því, ef þetta fer nú vel með reglugerðarbreytinguna og samráðið, að við getum farið af stað á þessu ári og við verðum þá komin í fulla keyrslu á þessu mjög mikilvæga máli vegna þess að blóðbankar eru auðvitað nauðsynlegur þáttur í innviðum heilbrigðisþjónustu og við þurfum að fjölga blóðgjöfum úr 6.000 í 8.000. Það er bara mjög mikilvægt og það að breyta þessari reglugerð getur verið liður í því. Það er mjög vaxandi þörf á blóðhlutum vegna vaxandi fólksfjölda og öldrunar þjóðar og hratt vaxandi fjölda læknisfræðilegra inngripa. Þannig að það er allt sem mælir með því að við tökum upp NAT-skimunina sem mun auka öryggi allra sjúklinga og möguleika á að stækka mengi blóðgjafa.

Ég get svo sannarlega sagt það hér að við erum á þessum stað akkúrat núna, erum að koma með þessa reglugerð í samráðsgátt. Ég mun síðan auðvitað fylgja því eftir, nú er komið nákvæmara kostnaðarmat á það hvað slík skimun felur í sér og áhættumat, þannig að hægt er að setja það inn í fjármálaáætlun núna sem hangir saman við að þetta verði allt saman komið á og fyrir alla frá og með 1. janúar 2025. En við förum af stað á þessu ári með þessi kerfi. Þetta er uppleggið sem ég get séð fyrir mér eins og staðan er núna þannig að þessi reglugerðardrög sem gera myndu NAT-skimunina að skyldu fyrir allar heilblóðseiningar og blóðhluta úr blóðskilun hér á landi myndu gilda frá og með 1. janúar 2025 en við færum af stað á þessu ári.