154. löggjafarþing — 65. fundur,  5. feb. 2024.

breytingar á lögum um mannanöfn.

533. mál
[18:33]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég kem hérna upp sérstaklega til þess að fagna þessum nýja tón frá Sjálfstæðisflokknum sem bara fyrir þremur árum felldi beinlínis frumvarp um breytingu á mannanafnalögum. Fyrir vikið er ég hingað komin, undir liðnum fundarstjórn forseta, til þess að óska eftir því að forseti liðki fyrir öllum þeim frelsismálum sem koma frá Sjálfstæðisflokknum af því að þau eru nú ekki mörg. Við getum bara byrjað á þessu máli sem hæstv. ráðherra hefur eindreginn stuðning okkar í Viðreisn við. Við lögðum þetta mál fram síðast, þá felldi Sjálfstæðisflokkurinn það, stráfelldi því miður. En batnandi fólki er best að lifa og þess vegna vil ég óska eftir því að forseti víkki út dagskrána og reyni að koma að þessum frelsismálum sem liggja svona þungt á Sjálfstæðisflokknum. Bara greiðum fyrir þeim.