154. löggjafarþing — 65. fundur,  5. feb. 2024.

fjöldi lögreglumanna.

460. mál
[18:46]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir) (V):

Forseti. Árið 2007 var nýtt embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu stofnað. Þá störfuðu þar 339 lögreglumenn og þjónuðu sjö sveitarfélögum. Svæði embættisins í dag þjónar um 250.000 íbúum landsins og eins og gildir um allar höfuðborgir og höfuðborgarsvæði eru verkefnin mörg fjölbreytt og sum hver mjög þung. Hún sinnir umferðareftirliti og til höfuðborgarinnar koma næstum allir ferðamenn sem sækja landið heim með tilheyrandi álagi. Miðborginni fylgir næturlíf og þegar líða tekur á nóttina fylgir því erill, því fylgja útköll og ofbeldi. Það eru breytur eins og þær að hér eru öll sendiráð landsins staðsett en síðast en ekki síst hefur þýðingu að á höfuðborgarsvæðinu hefur frá því að nýtt lögregluembætti var stofnað árið 2007 orðið gríðarleg fólksfjölgun á svæðinu. Þessum aukna fólksfjölda hefur hins vegar ekki verið fylgt eftir með því að efla löggæsluna til samræmis, þvert á móti. Árið 2023 hafði lögreglumönnum embættisins fækkað frá því sem var þegar til embættisins var stofnað og voru orðnir 297 talsins. Höfuðborgarbúum eða íbúum á höfuðborgarsvæðinu hafði fjölgað um 25% en lögreglumönnum hafði á sama tíma fækkað um 13. Það er ótrúlegt til þess að hugsa að svo mikil fækkun hafi orðið í lögreglunni á þessu langsamlega fjölmennasta svæði landsins þangað sem um 75–80% allra hegningarlagabrota koma til meðferðar. Þetta hefur líka gerst á sama tíma og rannsóknir sakamála eru stærri og flóknari en áður var og skipulögð glæpastarfsemi er orðinn veruleiki. Það er eðli málsins samkvæmt á höfuðborgarsvæðinu, hér eins og annars staðar, að alvarlegustu brotin eru fleiri á þessu svæði.

Árið 2022 voru lögreglumenn á höfuðborgarsvæðinu 1,2 á hverja 1.000 íbúa, einn á hverja 1.000. Til að hlutfallið verði svipað og hjá þeim embættum sem eru með næstlægsta hlutfallið á landinu þyrfti að fjölga lögreglumönnum á höfuðborgarsvæðinu um í kringum 200. Það er staðreynd að í öðrum löndum er hlutfall lögreglumanna hærra í höfuðborgum en landsbyggð en því er ekki til að dreifa hér. Þetta er sagt með þeirri vitneskju að staðan á landsvísu er heldur ekki góð. Landsbyggðin á Íslandi er sannarlega ekki ofalin í þessu sambandi. Umdæmi lögreglunnar eru víða um land stór og víðfeðm og þar þarf að gera betur. Árið 2020 var fjöldi lögreglumanna á hverja 100.000 íbúa næstlægstur á Íslandi í samanburði við 32 önnur Evrópuríki. Við stöndum ekki vel í alþjóðlegum samanburði.

Ég spyr hæstv. dómsmálaráðherra: Stendur til að gera betur. Munum við sjá pólitískar áherslur hennar (Forseti hringir.) birtast í næstu fjárlögum? Mun hún bregðast við þessum veruleika og í samræmi við ummæli hennar hingað til með því að fjárfesta af auknum krafti í löggæslu?