154. löggjafarþing — 65. fundur,  5. feb. 2024.

fjöldi lögreglumanna.

460. mál
[18:50]
Horfa

dómsmálaráðherra (Guðrún Hafsteinsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurningarnar sem til ráðherra er beint. Hér er spurt: Telur ráðherra fjölda starfandi lögreglumanna á Íslandi haldast í hendur við aukinn fjölda verkefna o.s.frv.? Því er fljótsvarað: Nei, ég tel svo ekki vera.

Í nýlegu svari dómsmálaráðherra við fyrirspurn um fjölda starfandi lögreglumanna, á þskj. 470, mál 279, kom fram að heildarfjöldi starfandi lögreglumanna í landinu er 895. Einnig kom fram að heildarfjöldi starfandi lögreglumanna hafi verið 20,4 á hverja 10.000 íbúa árið 2013 og 20,2 á hverja 10.000 íbúa árið 2023. Hvað varðar ferðamenn kom fram að heildarfjöldi lögreglumanna á hverja 10.000 ferðamenn á árinu 2013 hafi verið 8,1 en 4,6 árið 2023. Með vísan til þessa liggur því fyrir að fjöldi lögreglumanna er ívið lægri en hann var fyrir áratug síðan. Með gríðarlegri fjölgun ferðamanna gefur augaleið að þegar talinn er heildarfjöldi lögreglumanna á hverja 10.000 ferðamenn hefur lögreglumönnum hlutfallslega fækkað. Ef miðað er við mat ríkislögreglustjóra sem fram kom í skýrslu innanríkisráðherra um störf nefndar um grundvallarskilgreiningar löggæslu á Íslandi og gerð löggæsluáætlunar fyrir Ísland þurfa lögreglumenn að lágmarki að vera 860 talsins. Þegar það viðmið var sett fram árið 2013 var hin mikla fjölgun ferðamanna til landsins ekki orðin að veruleika.

Það má segja að þróun löggæslumála hafi ekki verið í takt við almenna þróun í íslensku samfélagi undanfarin ár þar sem landsmönnum hefur fjölgað hratt og ferðamenn eru margfalt fleiri en áður. Þessari fjölgun hafa fylgt margvísleg verkefni lögreglu og aukið álag um land allt.

Eins og fram kemur áður liggur fyrir að fjöldi lögreglumanna hefur ekki haldið í við þessa þróun og hlutfall ófaglærðra lögreglumanna hefur farið hækkandi, sér í lagi á landsbyggðinni og viðbragðstíma lögreglu er ábótavant víða um landsbyggðina. Samhliða þessari þróun höfum við orðið vör við aukinn vopnaburð og alvarlegri afbrot en áður auk þess sem skipulögð brotastarfsemi hefur aukist hér á landi. Undanfarin ár hafa ítrekað heyrst varnaðarorð frá lögregluyfirvöldum vegna þessarar þróunar.

Að öllu framangreindu virtu telur ráðherra að fjöldi starfandi lögreglumanna hér á landi haldist ekki í hendur við aukinn fjölda verkefna, mikla þjónustu vegna mikillar fjölgunar ferðamanna og þyngri sakamálarannsókna.

Einnig var ráðherra spurður hvort ráðherra hyggist beita sér fyrir því að fjölga lögreglumönnum á Íslandi. Á vormánuðum síðastliðins árs setti dómsmálaráðuneytið, ríkislögreglustjóri og lögreglustjórar landsins ásamt héraðssaksóknara af stað stóreflingu í almennri löggæslu, bættan málshraða kynferðisbrota, aðgerðir gegn skipulagðri brotastarfsemi og eflingu lögreglunáms hér á landi. Til að bregðast við þeirri stöðu sem upp var komin hér á landi var ákveðið að kynna fjórþætt aðgerðaplan í löggæslumálum. Áætlunin gekk út á að efla almenna löggæslu og einnig almenna menntun lögreglumanna. Kynnt var ný aðgerðaáætlun gegn kynferðisbrotum og aðgerðir gegn skipulagðri brotastarfsemi voru stórefldar.

Með þessari vinnu hefur tekist að efla löggæslu á Íslandi og skapa sterkan grundvöll fyrir skilvirkar aðgerðir. Margt hefur gerst á síðasta ári og ráðherra mun áfram beita sér í þessum málaflokki. Á síðasta ári var stöðugildum hjá lögreglu fjölgað umtalsvert. Ráðningar hjá embættum lögreglu standa enn yfir og ganga samkvæmt áætlun. Markmið fjölgunar var að mæta veikleikum og efla löggæslu um allt land. Á höfuðborgarsvæðinu var lögreglumönnum á vakt fjölgað og á landsbyggðinni var viðbragðsgeta styrkt. Þá var einnig lögð sérstök áhersla á að efla almannavarnir og samfélagslöggæslu. Bætt var við stöðugildum lögreglumanna, sérfræðinga og landamæravarða auk stöðugilda sem er sérstaklega ætlað að takast á við skipulagða brotastarfsemi.