154. löggjafarþing — 65. fundur,  5. feb. 2024.

fjöldi lögreglumanna.

460. mál
[18:55]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Í lok árs 2012 skilaði þverpólitísk nefnd mjög skýrum skilaboðum til stjórnvalda: Það þarf að fjölga lögreglumönnum um 236. Það hefur ekki orðið raunin. Samfellt frá árinu 2013 hefur Sjálfstæðisflokkurinn stýrt þessu ráðuneyti. Við horfum ítrekað upp á fækkun lögreglumanna, ekki síst hérna á höfuðborgarsvæðinu. Hún var mjög áhrifarík heimsókn okkar þingmanna Viðreisnar til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu þar sem okkur var sýnt að það vantar lögreglufólk hér á þessu svæði og því hefur farið hlutfallslega fækkandi. Löggæsla er frumskylda hins opinbera. Hlutverk lögreglu er að halda uppi allsherjarreglu, stemma stigu við afbrotum og greiða götu borgaranna. Skilaboð okkar í Viðreisn eru alveg skýr: Það þarf að efla löggæsluna því löggæslan er mjög mikilvægur hluti af innviðum þjóðarinnar sem við megum ekki vanrækja eins og verið hefur síðastliðin tíu ár.