154. löggjafarþing — 65. fundur,  5. feb. 2024.

fjöldi lögreglumanna.

460. mál
[18:57]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Virðulegi forseti. Mig langar að byrja á því að þakka fyrirspyrjanda fyrir þessa mikilvægu umræðu. Það er skortur á lögreglumönnum, sérstaklega hér á höfuðborgarsvæðinu, en það er ekki bara skortur á lögreglumönnum, það er skortur á menntuðum lögreglumönnum. Í svari til mín frá dómsmálaráðuneytinu á síðasta ári kom í ljós að það hefur stórlega breyst hversu mikið er af menntuðum lögreglumönnum við störf. Það skiptir miklu máli að við séum með menntað fólk að störfum. Að auki langar mig að nefna sérstaklega að það þarf hreinlega að gera byltingu í því hversu margir eru að hjálpa til við rannsóknir á stafrænum glæpum. Þetta er flöskuháls sem er að stoppa rannsóknir ekki bara kynferðisbrota heldur nær allra alvarlegra brota vegna þess að nær öll brot í dag hafa einhverja stafræna hlið og það þarf virkilega að auka við þann mannskap sem er þar.