154. löggjafarþing — 65. fundur,  5. feb. 2024.

lokun fangelsisins á Akureyri og fangelsismál.

530. mál
[19:16]
Horfa

dómsmálaráðherra (Guðrún Hafsteinsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Eins og fram kom hér í fyrra svari mínu þá hefur ekki staðið til að opna fangelsi eða úrræði fyrir norðan. Aftur á móti hefur ráðherra velt því upp að koma upp gæsluvarðhaldi nær alþjóðaflugvellinum þar sem, eins og hefur verið í fréttum, nokkuð margir þurfa að fara í gæsluvarðhald. Það gætum við leyst með gæsluvarðhaldsfangelsi við alþjóðaflugvöllinn og væri mun hentugra og hagkvæmara fyrirkomulag heldur en það fyrirkomulag sem nú er við lýði. (Gripið fram í.) Gæsluvarðhaldsfangelsi við alþjóðaflugvöllinn sem myndi henta þeirri starfsemi og flæði fólks … (Gripið fram í.) — Keflavíkurflugvöll, alþjóðaflugvöllinn á Suðurnesjum, hv. þingmaður.

Það er alveg rétt sem hv. þingmaður segir að ef allt ætti að miðast við þá þjónustu sem í boði er í landinu þá myndi allt dragast hér að höfuðborgarsvæðinu. Ég ætla að biðja hv. þingmann að minnast þess að ég er mjög hlynnt eflingu alls á landsbyggðinni, sömuleiðis þjónustu sem þessarar. En eins og ráðherra sagði í fyrra svari sínu er rekstur fangelsa mjög sérhæfð þjónusta og endurhæfing fanga er mjög sérhæfð. Sú þekking, alla vega enn sem komið er, er að mestu hér í kringum fangelsin á Hólmsheiði og Litla-Hrauni. (Forseti hringir.) Ég vil að endingu fá að ítreka að það er í gangi núna heildarendurskoðun á fullnustukerfinu (Forseti hringir.) og þar eru öll fangelsismálin undir og ég vænti mikils af þeirri vinnu til hagsbóta í þessum málaflokki.