154. löggjafarþing — 66. fundur,  6. feb. 2024.

fyrirtækjaskrá o.fl.

627. mál
[15:00]
Horfa

menningar- og viðskiptaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um fyrirtækjaskrá, lögum um hlutafélög, lögum um einkahlutafélög, lögum um ársreikninga og lögum um skráningu raunverulegra eigenda, fyrirtækjaskrá, á þskj. 924, 627. mál. Með þeim breytingum sem lagðar eru til í frumvarpinu eru innleidd ákvæði tilskipana Evrópusambandsins sem fjalla um samtengingarkerfi fyrirtækja og félagaskrá aðildarríkja ESB. Þær breytingar sem frumvarpið kveður á um eru þríþættar: Í fyrsta lagi eru í frumvarpinu lagðar til breytingar á lögum um fyrirtækjaskrá, lögum um hlutafélög, lögum um einkahlutafélög og lögum um ársreikninga. Breytingarnar sem lagðar eru til miða að því að veita ríkisskattstjóra heimild til að miðla og taka á móti upplýsingum og gögnum úr fyrirtækjaskrám annarra EES-ríkja í gegnum samtengingarkerfi fyrirtækja og félagaskrá aðildarríkjanna, en samtengingarkerfið var sett á fót í samræmi við 22. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2017/1132 frá 14. júní 2017 um tiltekna þætti félagaréttar.

Virðulegur forseti. Samkvæmt umræddri tilskipun ber aðildarríkjum að tryggja að veittur sé aðgangur að ákveðnum upplýsingum og gögnum í fyrirtækja- og félagaskrám ríkjanna í gegnum samtengingarkerfið, svo sem upplýsingum um heiti félags, lögheimili, skráningarnúmer og fleira. Með frumvarpinu er lagt til að ráðherra hafi heimild til að setja reglugerð um nauðsynlegar tækniforskriftir og verklagsreglur fyrir samtengingarkerfi miðlægra skráa í samræmi við umrædda tilskipun (ESB) 2017/1132, sem og um almennan aðgang að upplýsingum úr fyrirtækjaskrá sem birtast í vefgátt samtengingarkerfis skráa.

Í öðru lagi eru í frumvarpinu lagðar til breytingar á lögum um fyrirtækjaskrá og lögum um skráningu raunverulegra eigenda sem lúta að samtengingarkerfi skráa. Lagt er til að ríkisskattstjóri veiti upplýsingar um raunverulegt eignarhald samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2015/849 frá 20. maí 2015 um ráðstafanir gegn því að fjármálakerfið sé notað til peningaþvættis eða til fjármögnunar hryðjuverka. Samkvæmt tilskipuninni ber aðildarríkjum að tryggja að miðlægar skrár um raunverulega eigendur lögaðila og um fjárvörslusjóði og sambærilega aðila verði samtengdar í gegnum evrópska miðlæga vettvanginn sem komið var á fót í samræmi við tilskipun (ESB) 2017/1132. Með frumvarpinu er lagt til að ríkisskattstjóri veiti lögbærum yfirvöldum og skrifstofu fjármálagreininga lögreglu í aðildarríkjum EES-ríkjanna tímanlega óheftan aðgang að öllum skráðum upplýsingum um raunverulega eigendur án þess að hlutaðeigandi aðilum sé gert viðvart. Einnig er lagt til að tilkynningarskyldir aðilar skv. 2. gr. tilskipunar (ESB) 2015/849 hafi við framkvæmd áreiðanleikakönnunar skv. II. kafla tilskipunarinnar tímanlega aðgang að nauðsynlegum upplýsingum.

Skilgreiningu á tilgreindum tilkynningarskyldum aðilum er að finna í 17. tölulið 3. gr. laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, nr. 140/2018, en m.a. er þar um að ræða fjármálafyrirtæki, tryggingafélög, endurskoðendur, lögmenn, skattaráðgjafa, aðila sem færa bókhald og fasteignasala.

Í þriðja lagi er með frumvarpinu lagt til að í lögum um fyrirtækjaskrá, lögum um hlutafélög og lögum um einkahlutafélög verði kveðið á um heimildir ríkisskattstjóra til að vinna með persónulegar upplýsingar að því marki sem honum er það nauðsynlegt til að sinna hlutverki sínu samkvæmt lögunum, svo sem vegna skráningar upplýsinga í fyrirtækjaskrá og við að veita aðgang að þeim upplýsingum.

Virðulegur forseti. Verði frumvarp það sem ég mæli hér fyrir óbreytt að lögum hlýst af því einhver kostnaður fyrir ríkissjóð og fellur sá kostnaður til hjá embætti ríkisskattstjóra, en ríkisskattstjóri starfrækir fyrirtækjaskrá. Kostnaðurinn hlýst annars vegar af vinnu við tæknilegar útfærslur og breytingar á tölvukerfum embættisins svo hægt sé að tengja fyrirtækjaskrá í gegnum samtengingarkerfið og hins vegar af almennri starfrækslu kerfisins.

Verði frumvarpið að lögum mun lagasetningin hafa í för með sér samfélagslegan ávinning, annars vegar vegna aukins gagnsæis sem eykur almennt traust og trúverðugleika viðskiptalífsins, og hins vegar vegna aukins aðgangs tiltekinna aðila sem taka við tilkynningum og sinna rannsóknum á peningaþvættisbrotum og gera áreiðanleikakannanir á viðskiptavinum sínum með því að skoða raunverulegt eignarhald lögaðila og afla upplýsinga um uppruna fjár viðskiptavina sinna.

Virðulegur forseti. Ég tel að hér sé á ferðinni þýðingarmikið frumvarp sem muni hafa jákvæð áhrif í för með sér og stuðla að auknu trausti til viðskiptalífsins og auknu gagnsæi. Mikilvægt er að Ísland taki þátt í miðlægu samtengingarkerfi skráa á sviði félagaréttar innan EES og innleiði viðkomandi gerðir á því sviði eins og hér er lagt til án þess að í því felist kostnaður fyrir íslenskt atvinnulíf eða aukin reglubyrði. Frumvarpið er eðlilegt framhald af afar farsælli þátttöku okkar í EES-samstarfinu á sviði félagaréttar undanfarna áratugi sem og til að koma í veg fyrir peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hæstv. efnahags- og viðskiptanefndar til umfjöllunar.