154. löggjafarþing — 66. fundur,  6. feb. 2024.

mótun heildstæðrar stefnu um áfengis- og vímuefnavarnir.

30. mál
[16:33]
Horfa

Flm. (Sigmar Guðmundsson) (V) (andsvar):

Forseti. Mig langar aðeins að bæta við. Við erum t.d. að fá fréttir af því núna að svona oxycontin-töflur, sem eru stór partur af þessum ópíóíðafaraldri sem gengur, eru til hér á Íslandi þar sem búið er að blanda fentanýli saman við, sem þýðir þá að fólk er að taka miklu sterkara eitur en það áttar sig á. Þetta hefur valdið mörgum dauðsföllum ytra. Við höfum ekki séð neinar upplýsingar opinberlega um að sama staða sé hér. En það var í fjölmiðlum á dögunum frétt af því — það var verið að vitna í samskiptasíðu þar sem menn eiga viðskipti með alls konar efni og þá var einmitt verið að vara við þessum blönduðu töflum. Það er einn anginn af þessu öllu.

Auðvitað er það sem við köllum í daglegu tali læknadóp stór partur af vandanum núna, ópíóíðafaraldrinum og allt þetta. En við megum auðvitað ekki gleyma því að öll þessi lyf eru til vegna þess að þau gera gagn. Mikið af þessum lyfjum sem verið er að misnota eru líka lyf sem fólk hefur mikið gagn af í alls kyns læknismeðferðum og öðru slíku. En svo erum við líka með faraldur efna sem hvorki eru lögleg né eru læknadóp eða neitt annað heldur bara framleidd af einhverjum glæpahópum hér og þar um heiminn og flutt á milli landa. Þetta er risavaxinn og stór iðnaður sem þrífst náttúrlega mjög vel á því að þetta er allt saman neðan jarðar.

Við verðum auðvitað að grípa strax inn í. Við eigum ekki að líða það að við séum að missa svona margt fólk, hvort sem fólk er nú að nota áfengi, sem enn er stærsti og alvarlegasti vímugjafinn sem við notum á Íslandi, eða eitthvað sem læknar skrifa út eða jafnvel læknadóp sem er flutt inn til landsins eins og er algengt og selt á svörtum markaði eða hvort við erum að tala um hin ólöglegu fíkniefni. Ég lít þannig á að þetta sé sjúkdómur. Allir þeir sem eru með þennan sjúkdóm geta orðið háðir öllum þessum efnum. Heilinn í okkur sem erum veikir alkóhólistar, á meðan við erum veikir, er ekkert að velta því fyrir sér hvort efnið sé löglegt, hvort hægt sé að kaupa það með löglegum hætti eða á svörtum markaði eða ekki. Þetta er bara fíkn og fólk verður ofurselt henni.