154. löggjafarþing — 66. fundur,  6. feb. 2024.

mótun heildstæðrar stefnu um áfengis- og vímuefnavarnir.

30. mál
[16:50]
Horfa

Tómas A. Tómasson (Flf):

Virðulegi forseti. Hv. þingmenn. Kæra þjóð. Ég þakka hv. þm. Sigmari Guðmundssyni fyrir þessa dásamlegu þingsályktunartillögu. Mig langar að lesa hérna niðurlagið:

„Lagt er til að heilbrigðisráðherra móti heildstæða stefnu sem byggist á sömu forsendum og stefnan sem var sett 2013 en taki mið af þeim breytingum sem hafa orðið síðan þá, bæði á málaflokknum en líka á þekkingu okkar á meðferðum og skaðaminnkandi úrræðum.“

Það sem mig langar að segja er þetta: Það eru eftirmeðferðarúrræðin sem skipta svo miklu máli. Ég talaði við þá hjá Krýsuvík og þeir sögðu mér að ári eftir að menn útskrifast þaðan væru þeir með 80% árangur sem er alveg dásamlegt. Það er ekki sami árangur hjá SÁÁ. Hvað er til bragðs að taka? Sá sem hér stendur þekkir þennan málaflokk ákaflega vel. Ég er óvirkur alkóhólisti síðan 1980. Þá fór ég í meðferð og mér er það minnisstætt að í þeirri meðferð heyrði ég í fyrsta skipti talað um dóp. Þetta dóp sem var talað um var diazepam, librium, valium, þetta voru sterku efnin sem voru í gangi á þeim tíma. Núna er þetta allt annað eins og við vitum, heróín, amfetamín, fentanýl og öll þessi lyf sem við erum búin að nefna hér í kvöld.

Mig langar að vitna svolítið í hvað menn gera þegar þeir koma úr meðferð, því það er það sem skiptir máli, að það sé tekið á móti fólki sem kemur úr meðferð. Það er ekki nóg að fara — ég þekki þennan málaflokk mjög vel og hitti reglulega nokkur hundruð manns sem hafa gengið í gegnum þetta og eru að glíma við sitt líf og ég fer iðulega í fangelsin og hitti þar menn líka, þannig að ég þekki þetta nokkuð vel. Það sem ég sé hérna kannski mest ábótavant er það að þegar menn koma bæði út úr fangelsi og út úr meðferð, hvað tekur við? Ef fólk fær ekki aðstoð, ef það fær ekki einhvern sem leiðir það í gegnum fyrstu vikurnar, fyrstu mánuðina þess vegna, til að komast inn í lífið eins og það vill og á að vera, þá hættir fólki til að leita í þann félagsskap sem það var í áður en það fór í meðferðina eða áður en það fór inn og þá er fjandinn laus.

Ég ætla að lesa fyrir ykkur hérna, þetta er ekkert leyndarmál, það er AA-samtökin. Hér stendur: Hvað eru AA-samtökin? AA-samtökin eru félagsskapur karla og kvenna, eða reyndar félagsskapur fólks eins og sagt er í dag, sem „samhæfir reynslu sína, styrk og vonir svo að það megi leysa sameiginlegt vandamál sitt og sé fært um að hjálpa öðrum til að losna frá áfengisbölinu. Til þess að gerast AA-félagi þarf aðeins eitt; löngun til að hætta að drekka. Inntöku- eða félagsgjöld eru engin, en með innbyrðis samskotum sjáum við okkur efnalega farborða. AA-samtökin eru sjálfstæð heild og óháð hvers kyns félagsskap öðrum. Þau halda sig utan við þras og þrætur og taka ekki afstöðu til opinberra mála. Höfuðtilgangur okkar er að vera ódrukkin og að styðja aðra alkóhólista til hins sama.“

Sem sagt: Höfuðtilgangur okkar er að vera ódrukkin og styðja aðra alkóhólista til hins sama. Þegar ég fór í meðferð — ég hef farið í nokkrar meðferðir, ekki það að ég væri byrjaður að drekka aftur heldur þurfti ég á því að halda að fá hvatningu til þess að ná tökum á mínu lífi — þá er mér það í fersku minni þegar ég fór á Edgehill í Newport í Rhode Island 1983. Eins og rauður þráður í gegnum þá meðferð — sem var 28 daga meðferð, sams konar meðferð og er hjá SÁÁ á Vík — var: Þú ferð í AA þegar þú kemur héðan út. Og af hverju segi ég þetta? Vegna þess að það er svo fljótt að fenna í sporin. Menn eru svo fljótir að gleyma því hvað þetta var slæmt. Ég man á sínum tíma þegar ég var einu sinni án áfengis í þrjú ár að ég var farinn að sakna þess að vera timbraður. Það endaði með því að ég datt í það aftur og þegar ég datt í það aftur þá mundi ég allt í einu að ég saknaði þess ekki að vera timbraður. Þið sjáið að það fennir svo fljótt í sporin ef menn eru ekki stöðugt að minna sig á hvaðan þeir komu og hvert þeir eru að fara og hvar þeir eru á hverjum tíma.

Það er fræg saga um eiganda Wrigley's tyggigúmmís sem var að fljúga og hitti mann sem hann fór að spjalla við og maðurinn segir við hann: Af hverju í ósköpunum eruð þið alltaf að auglýsa tyggigúmmíið ykkar þegar það er svo vinsælt og allir eru að kaupa og allir að tyggja það? Þá sagði maðurinn: Ímyndaðu þér að við myndum slökkva á þessari flugvél núna og hún myndi bara fljúga sjálf. Hún myndi smám saman missa hæðina og hrapa. Eins er það með tyggigúmmíið, ég auglýsi það reglulega til að minna fólk á að það er til tyggigúmmí sem er gott og menn eiga að tyggja það reglulega. Þannig er þetta líka þegar við komum úr meðferðinni. Við þurfum á því að halda að það sé stöðugt verið að minna mann á hvaðan maður kemur. Það er bara eins og rauður þráður í gegnum allt.

Svo ætla ég að segja að lokum, og það er mjög mikilvægt að menn átti sig á því, að enginn getur hætt drykkjuskap nema hann vilji það sjálfur. Það er hægt að senda fólk í — ég þekki konu, hún fór 40 sinnum inn á Vog en hún gafst ekki upp og hún er í dag búin að vera án áfengis í tíu ár og lifir mjög flottu lífi. En fram að þeim tíma hafði hún engan áhuga á þessu, fór alltaf í meðferð fyrir einhverja aðra og kom út og var dottin í það áður en hún vissi af. Þannig er þetta. Ef maður gerir þetta ekki af sjálfsdáðum og vill ná árangri þá skiptir engu máli hversu meðferðin er góð. Maður kemur út fullur af áhuga, maður kann þetta utan að, maður er búinn að sitja í fyrirlestrum og maður kann fyrirlestrana orðið utan að, þeir eru mjög fræðandi og maður segir: Já, ókei, ég skil þetta, ókei já, ég er alkóhólisti, ég er þetta og hitt, og svo kem ég út og ég get þetta. En ef maður er ekki minntur á þetta stöðugt þá er ekki spurning að það snjóar í sporin og áður en maður veit af er maður dottinn í það.