154. löggjafarþing — 66. fundur,  6. feb. 2024.

mótun heildstæðrar stefnu um áfengis- og vímuefnavarnir.

30. mál
[17:30]
Horfa

Flm. (Sigmar Guðmundsson) (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Eyjólfi Ármannssyni fyrir hans innlegg inn í þessa umræðu. Ég hef verið að nefna það hér að við þurfum öll að vera svolítið fordómalaus þegar við komum að þessu. Hvernig búum við til betra samfélag sem tekst á við þann vanda sem áfengissýki eða vímuefnavandi, alkóhólismi, eða fólk með fíknivanda er að valda? Það sem ég ætlaði kannski að undirstrika hér er að það er auðvitað hárrétt sem skein í gegnum alla ræðu hv. þingmanns að áfengi er alveg ótrúlega mikill skaðvaldur í samfélaginu. Við gleymum því oft af því við erum svo mikið að tala um ópíóíðana eða ólögleg vímuefni.

Þótt ég ætli að koma algerlega fordómalaus að þessari umræðu þá spyr ég: Ef þetta væri svo einfalt að aðgengið réði öllu, værum við þá í einhverjum vanda t.d. með ólögleg vímuefni? Það er ekkert opinbert aðgengi að hassi, kókaíni, amfetamíni, heróíni eða öllu þessu, við bara beinlínis bönnum þetta og höfum gert það frá upphafi. Hverju hefur það skilað? Ég hef ákveðnar efasemdir um að bannið hafi endilega skilað því að neyslan sé eitthvað minni. Það sama á auðvitað við um áfengið. Mér finnst að við þurfum að taka þetta til greina líka vegna þess að þó að ég sé mjög ákafur í því að vilja berjast gegn þessum vágesti sem fylgir því að vera með þennan sjúkdóm þá er það auðvitað þannig að langstærstur hluti fólks sem drekkur áfengi gerir sér það að skaðlausu. Ég ætla svo sannarlega ekki að gera athugasemdir við að það sé. Ef þetta væri svo einfalt að við gætum fjarlægt vanda með því að banna þá væri gott að lifa en ég held að dæmin sýni að það er ekki alveg svo einfalt. Við sjáum þetta líka með áfengisauglýsingarnar og netsöluna sem hv. þingmaður var að nefna. Það er bara ákveðinn veruleiki í gangi sem gerir það að verkum að það getur verið erfitt að framfylgja lögum sem eru þess eðlis að það er alltaf hægt að fara í kringum þau eins og dæmin sanna.