154. löggjafarþing — 67. fundur,  7. feb. 2024.

fjáraukalög 2024.

626. mál
[17:05]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Tilefni er til, við vitum það. Við vitum að eftir þrjú ár mun vanta 7.000 íbúðir inn í kerfið okkar og það mun örugglega vera þörf fyrir félagslegu úrræðin þá og næstu áratugi. En gott og vel. Það er gott að heyra að það sé jákvæðni fyrir þessu.

Varðandi samþykktir Bríetar þá má rifja það upp að í desember kom fram að Bríet hætti við kaup á fjórum eða fimm íbúðum á höfuðborgarsvæðinu í nokkra klukkutíma. Síðan barst minnisblað frá ráðuneytinu, lögfræðiálit, og íbúðirnar voru keyptar aftur vegna þess að það var talið hafið yfir allan vafa að þetta væri rétt og löglegt. Hvað hefur breyst í millitíðinni? Hvað er það þá sem gerir það að verkum að þessar efasemdir vakna núna um að minnisblaðið dugi ekki til? Þetta er eiginlega með ólíkindum vegna þess að á fundinum síðastliðinn fimmtudag voru fulltrúar þessara aðila algerlega skýrir á því að þetta væri hafið yfir allan vafa. Það er að sjálfsögðu gott að nú ætli menn að hafa vaðið fyrir neðan sig og tryggja það. Ég geri hins vegar athugasemdir við að það hafi ekki verið gert alveg í þeirri röð, því að formsatriðin skipta stundum heilmiklu máli, ekki síst þegar verið er að veita miklar fjárveitingar. Í öðru lagi kalla ég eftir skýringum um hvaða efasemdir kviknuðu sem voru ekki til staðar í desember eftir að minnisblaðið barst og voru sannarlega ekki til staðar á fundi fjárlaganefndar á fimmtudaginn.