154. löggjafarþing — 67. fundur,  7. feb. 2024.

almannatryggingar og félagsleg aðstoð.

91. mál
[18:25]
Horfa

Flm. (Inga Sæland) (Flf):

Herra forseti. Ég flyt hér frumvarp til laga um breytingar á lögum um almannatryggingar og lögum um félagslega aðstoð (skerðingarlausa atvinnuþátttöku öryrkja). Öllum þingmönnum var boðið að vera með okkur Flokki fólksins á þessu máli en niðurstaðan er sú að það eru einungis hv. þingmenn Flokks fólksins með mér á málinu. Það eru Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Eyjólfur Ármannsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Jakob Frímann Magnússon og Tómas A. Tómasson. Ég er að hugsa um að drífa mig bara beint í greinargerðina með frumvarpinu en þar segir, með leyfi forseta:

„Frumvarpið var áður lagt fram á 150., 151., 152. og 153. löggjafarþingi (68. mál) og er nú lagt fram að nýju lítillega breytt.“ — Sem sagt eina ferðina enn.

Á fyrri þingum bárust umsagnir um málið frá Öryrkjabandalagi Íslands og Landssamtökunum Þroskahjálp. Umsagnaraðilar lýstu almennt yfir ánægju með frumvarpið.

Ákvæði gildandi laga um almannatryggingar eru torskilin og gjarnan reynist erfitt fyrir hinn almenna borgara að átta sig á framkvæmd laganna. Þeir öryrkjar sem fá greiðslu örorkulífeyris vita þó að þeir mega búast við ýmiss konar skerðingum afli þeir sér atvinnutekna.

Mig langar að nefna það, af því að nú er verið að tala um að frítekjumark öryrkja til atvinnuþátttöku sé 109.000 kr., að við höfum verið við sama heygarðshornið með það í ein 12 ár, breytingarlaust. Það er einhvern veginn búið að telja öryrkjum trú um að þeir geti unnið fyrir 109.000 kr. á mánuði án skerðinga. Það er rangt. Það er alrangt vegna þess að um leið og öryrki fer að sýna tekjur þá er hann skertur í öllu því sem lýtur að félagslegri aðstoð. Skerðingar og keðjuverkandi skerðingar — hann dettur inn í það. Þó að hann missi ekki heimilisuppbótina sína eða sérstöku heimilisuppbótina fyrr en við þessar 109.000 kr. hefur þetta beinar afleiðingar út í allan félagslegan stuðning sem viðkomandi öryrki hefur. Við í Flokki fólksins segjum að öryrkjar eigi ekki að þurfa að hafa áhyggjur af framtíðarhorfum sínum ef þeir gera tilraun til þess að vinna á ný. Það er í okkar valdi — hins háa Alþingis, kjörinna fulltrúa, okkar sem eigum að vernda og verja fólkið okkar, hjálpa því eftir bestu getu — að gefa þessum einstaklingum kost á því að fara út á vinnumarkaðinn ef þeir treysta sér til og vinna eins og heilsa þeirra og geta leyfir. En höfum við verið að gera það? Nei, við refsum þessu fólki ef það ætlar að reyna að fara út á vinnumarkaðinn. Við refsum þeim. Þau eru svipt örorkulífeyri sínum. Þau detta algerlega út úr kerfinu og þurfa að sækja um upp á nýtt eins og það er nú gæfulegt ferli eða hitt þó heldur.

Við í Flokki fólksins höfum iðulega bent á þá staðreynd að við öfluðum okkur gagna, bæði frá Svíþjóð og Hollandi, þegar við vorum að leggja fram þessi frumvörp um skerðingarlausa atvinnuþátttöku öryrkja í ákveðinn tíma. Við töluðum um ákveðinn aðlögunartíma þar sem við vildum reyna að aðstoða þetta fólk við að koma sér aftur út á vinnumarkaðinn ef það treysti sér til þess og hefði getu til. Er skemmst frá því að segja að þær upplýsingar sem við fengum frá Svíþjóð sýndu fram á að hvorki meira né minna en 32% þeirra öryrkja sem reyndu fyrir sér á vinnumarkaði í þessari tilraun Svía til að athuga hvort þeir gætu breytt einhverju í þessu kerfi — þar hafði öryrkjum fjölgaði mikið eins og hjá okkur, þar var kostnaður orðinn mikill eins og hjá okkur. Getum við gert eitthvað fyrir þennan mannauð, fyrir þennan þjóðfélagshóp og hjálpað þeim til sjálfshjálpar og reynt að koma þeim út úr þessari rammgerðu fátæktargildru? Það liggur svo á borðinu að íslenskir öryrkjar eru í helmingi öflugri og rammgerðari fátæktargildru en öryrkjar í Svíþjóð voru nokkurn tímann. Jú, það sem kom í ljós, þegar Svíarnir komu með þetta tækifæri til þessa bágstadda þjóðfélagshóps — að gefa þeim kost á því að fara út á vinnumarkaðinn án þess að refsa þeim, án þess að skerða þau, bara komið þið allir að vinna — var að þetta er hagur fyrir samfélagið í heild sinni. Þið munið borga skatta og skyldur af ykkar launum. Það eru í raun allir sem græða, samfélagið í heild sinni — við virkjum mannauðinn — og öryrkinn sjálfur. 32% af öryrkjum í Svíþjóð skiluðu sér ekki aftur inn á bótakerfið, 32% þeirra sem reyndu fyrir sér á vinnumarkaði skiluðu sér ekki aftur inn á bótakerfið. Hér hef ég staðið ítrekað, í andsvörum við fjármálaráðherra og velferðarráðherra og alls konar hæstv. ráðherra, og spurt: Hverju sætir það? Hvernig stendur á því að við erum svo gjörsamlega föst í einhverjum litlum kassa að við getum ekki stigið aðeins út fyrir, að við getum ekki aðeins hliðrað til og hleypt ljósinu inn — ekki hafa allt kveikt og enginn heima, heldur kveikja ljósið og vera heima og skoða hlutina raunverulega. Hvað myndi gerast hér ef við myndum t.d. koma á þessu kerfi fyrir öryrkjana okkar, gefa þeim kost á því, ef þeir treysta sér til og geta, að fara út á vinnumarkaðinn til að vinna skerðingarlaust hvað lýtur að greiðslum frá Tryggingastofnun? En við skulum ekki gleyma því að þetta er ekki þannig að þeir eigi að geta farið og unnið fyrir hvaða upphæð sem er án þess að það hafi áhrif á greiðslur Tryggingastofnunar, hér erum við bara að tala um meðaltekjur verkamanns. Það er því ekki verið að tala um forstjóralaun, að þú getir verið öryrki og farið á forstjóralaun og ekki verið skertur neitt frá Tryggingastofnun eins og þeir sem eru eitthvað að reyna að sparka í þetta góða mál eru að tala um áður en þeir hafa kynnt sér það

Við getum bara hugsað okkur það að við erum hér með yfir 22.000 einstaklinga sem fá greiðslur Tryggingastofnunar ýmist í endurhæfingarlífeyri eða örorkugreiðslur. Við vitum öll að þegar við missum fótanna, þegar við dettum út af vinnumarkaði, við lendum í slysi, við erum í endurhæfingu, við erum kannski komin með líkamlega burði til að gera ýmislegt en andlega hliðin er ekki nógu góð — það er erfitt að rífa sig upp þegar maður hefur verið lengi heima og er búinn að klippa sig frá öllu því sem er félagslegt. Það er rosalega erfitt að koma sér út í lífið á ný, það er ofboðslega erfitt. Og hvað getum við gert til að hjálpa fjólki? Við verðum að hvetja það til dáða með því að umbuna því. Við verðum að umbuna fólkinu okkar. Við verðum að kalla það út til okkar. Við verðum að hjálpa þeim því að ekki erum við að gera það með því að vera hér með geðheilbrigðisþjónustu handa öllum sem þess þurfa. Það liggur náttúrlega alfarið á borðinu. Ég segi sko: Af hverju erum við svona samansaumuð? Af hverju þarf ég að koma hér og mæla fyrir sanngirnis- og réttlætismáli sem er í raun algjör kúvending í þessum málaflokki öryrkja? Af hverju skyldi ég þurfa að mæla margsinnis fyrir máli sem á að vera svo sjálfsagt, að við reynum a.m.k. að athuga hvort við myndum ná sama árangri hér fyrir öryrkjana okkar og þeir náðu í Svíþjóð og reyndar líka í Hollandi? Af hverju skyldi það sama ekki ganga yfir okkur? Og það er ekki eins og við séum að biðja um eina einustu krónu úr ríkissjóði, ekki eina einustu krónu, heldur fær ríkissjóður þvert á móti skattgreiðslurnar af tekjunum sem þessir einstaklingar myndu vinna sér inn. Ríkið er hvort sem er að borga þessu fólki launin frá Tryggingastofnun, hvort heldur sem er. Við ætlum að gefa þeim kost á því að fara og vinna 50% vinnu, 60% vinnu, reyna fyrir sér eins og þeir mögulega geta að fá vinnu og um leið geta um frjálst höfuð strokið og borðað eitthvað annað en núðlur, hrísgrjón og hafragraut sex daga vikunnar og kannski steikta sviðalöpp á sunnudögum. Ég veit það ekki, ég veit bara að það er ömurleg staða, ömurleg spor að standa í, að ná ekki endum saman og eiga ekki peninga fyrir sig og sína og vera háður því að ríkisvaldið greiði þér þau laun sem eru ætluð til þess að þú geti framfleytt þér og þinni fjölskyldu. Það er sannarlega nógu sárt að vera öryrkinn sem er það veikur og vanmáttugur að hann getur ekki nýtt sér þann möguleika að fara út á vinnumarkaðinn. Það er þess vegna sem við í Flokki fólksins erum einnig að berjast fyrir lágmarksframfærslu, 400.000 kr., skatta- og skerðingarlaust. Ég ætla að nefna það hér — nei, ég er hætt við það, herra forseti. Ég er steinhætt við að nefna það hér. Ég ætla að nefna það á eftir vegna þess að ég er með annað mál, annað mjög gott frumvarp, sem ég mæli fyrir á eftir og þá ætla ég að segja ykkur svolítið leyndarmál. En fram að því þá segi ég: Það er allt að vinna fyrir okkur sem samfélag, það er allt að vinna. Ef við næðum 32%, við skulum bara segja 25%, af þeim öryrkjum sem gætu og treystu sér til að nýta sér þetta úrræði, hugsið ykkur þá ávinninginn fyrir samfélagið í heild sinni. Hugsið ykkur ávinninginn í að virkja þennan mannauð og ná þessu fólki aftur inn í samfélagið, hjálpa því að koma sér út úr svartnættinu sem maður festist í. Það liggur ljóst fyrir.

Herra forseti. Ég get sagt ykkur frá því hvað felst í greinum frumvarpsins, þessum breytingum. Þetta eru einstakar greinar. Í 1. gr. er lagt til að ný grein, 30. gr. a, bætist við lög um almannatryggingar sem heimili öryrkjum að sækja um undanþágu frá skerðingum lífeyris vegna atvinnutekna undir meðaltekjum í viðkomandi starfsstétt í tvö ár. Þarna hef ég farið með vitleysu áðan, af því að ég var ekki lesa af blaðinu hér — það er verið að tala um meðaltekjur í viðkomandi starfsstétt sem viðkomandi fær starf í. Þannig skerðast örorkulífeyrir, aldursviðbót, örorkustyrkur, tekjutrygging og uppbætur á lífeyri skv. 9. gr. laga um félagslega aðstoð ekki vegna atvinnutekna á því tímabili sem öryrki nýtir sér það úrræði sem þetta frumvarp gefur honum og mælir fyrir um. Það hafa verið vangaveltur um þetta en við höfum svo oft talað um þetta og ég er að vona að stjórnarliðar, hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar í stjórnarflokkunum, séu í raun að kynna sér málið af alvöru. Ég hef heyrt að þetta hefur aðeins síast inn. En hvernig getur það síast inn núna þegar enginn situr hér í salnum nema hv. þingmenn Flokks fólksins og herra forseti? Það er svo sem ekki skrýtið þó að það síist ekkert inn. Ég vil leyfa mér að efa það að þau hlaupi öll upp til handa og fóta, eftir að ég flyt málið í fimmta sinn, til að hlusta á það og hlýða á það. En málið hefur legið frammi. Þau getað skoðað það og kynnt sér það og ég er að vona af öllu hjarta að þau taki virkilega utan um það og átti sig á ábatanum fyrir samfélagið, að ná fólkinu okkar í virkni, að virkja mannauðinn okkar, því að það býr líka mannauður í öryrkjum. Það er mannauður í mér þó að ég sé lögblind kona. Það er mannauður í mér og hefur alltaf verið þó að ég sé öryrki. Það er mannauður í fötluðum bróður mínum, það er mannauður í okkur öllum. Og það er í raun ríkisstjórnarflokkunum, og stjórnvöldum hverju sinni, til ævarandi skammar að þeir skuli ekki taka fagnandi utan um þann mannauð og reyna að virkja eftir sinni bestu getu. Það er akkúrat það sem við segjum í Flokki fólksins. Ég ætla hér með að vísa þessu frumvarpi til herra forseta og biðja hann um að koma því á réttan stað því að ég veit ekkert hvað á að gera við það.