154. löggjafarþing — 67. fundur,  7. feb. 2024.

almannatryggingar.

93. mál
[19:12]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég er meðflutningsmaður á þessu frumvarpi til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar, afnám skerðinga ellilífeyris vegna atvinnutekna. Í frumvarpinu er lagt til að skerðingar vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega verði afnumdar. Lífeyriskerfið í dag er byggt á svokölluðu þriggja stoða kerfi eða á að vera byggt á þriggja stoða kerfi. Það eru almannatryggingar, lífeyrissjóður og séreignarsparnaður. Þetta er það kerfi sem fólk sem er hætt að vinna og komið á ellilífeyri á að treysta á. Fólk sem er búið að borga alla sína tíð skatt til Íslands, til íslenska ríkisins, treystir á það að ríkið noti skatttekjurnar á þeim tíma til að borga almannatryggingar. Fólk hefur líka borgað í lífeyrissjóð, það fær úr lífeyrissjóðnum, og svo hefur það eigin séreignarsparnað.

Það virðist vera að ef fólk ætlar að fara að vinna, taka þátt í lífinu eða samfélaginu með því að vinna líka, þá skerðist strax almannatryggingarnar. Það er óréttlátt. Þá er ekki verið að virða þær greiðslur sem fólkið hefur þegar greitt alla sína tíð í sameiginlegan sjóð landsmanna. Ég get ekki séð það öðruvísi ef við horfum á stjórnarskrána og það sem segir um atvinnufrelsið, að öllum sé frjálst að stunda þá atvinnu sem þeir kjósa — það er það frelsi sem er útgangspunkturinn í stjórnarskrá íslenska lýðveldisins í atvinnufrelsisákvæðinu. Þessu frelsi má þó setja skorður með lögum enda krefjist almannahagsmunir þess. Krefjast almannahagsmunir þess að atvinnufrelsi ellilífeyrisþega séu settar skorður? Nei, þeir gera það ekki. Þeir bara gera það ekki, sérstaklega í ljósi þess sem kemur fram í greinargerðinni með frumvarpinu um greinargerð sem dr. Haukur Arnþórsson vann um fjárhagslega stöðu aldraðra fyrir Félag eldri borgara í Reykjavík. Þar kemur fram að afnám skerðinga á lífeyrisgreiðslur vegna atvinnutekna þurfi ekki að fela í sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð og það sé vel hugsanlegt að ríkissjóður geti haft fjárhagslegan ávinning af aðgerðinni, af því að afnema þær. Flutningsmaður þessa frumvarps, hv. þm. Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, talaði um Capacent-könnunina og álitsgerð dr. Hauks Arnþórssonar. Flokkur fólksins er búinn að berjast fyrir því að reyna að fá þessa álitsgerð Capacent en hefur ekki tekist það enn þá, sem er algerlega með ólíkindum.

Í dag er í lögum kveðið á um að ellilífeyrisþegar skuli hafa 2,4 milljónir í sérstakt frítekjumark vegna atvinnutekna og að þetta sérstaka frítekjumark komi til viðbótar við hið almenna frítekjumark laganna sem nemur 300.000 kr. Ef ellilífeyrisþegar hafa launatekjur yfir 2.400.000 kr. á ári skerðist ellilífeyrir þeirra um 45% af því sem umfram er. Það þýðir að ef ellilífeyrisþegi er með meira en 2,4 milljónir fer hann að skerðast um 45%. Segjum að hann væri með milljón meira, 100.000 kr. meira, þá skerðist það um 45.000 kr. af þessum 100.000 kalli. Hann fær raunverulega bara 55.000 kr. greiddar af þeim 100.000 kr. sem hann aflar sér í tekjur umfram 2,4 milljónir. Þið sjáið hversu lítill hvati það er fyrir ellilífeyrisþega að fara að vinna með svona gríðarlega háa skerðingu. Eldra fólk hefur ítrekað bent á þetta, að það hefði þær afleiðingar að vinna hefði lítil sem engin áhrif á ráðstöfunartekjur. Þær aukast ekki. Þegar launatekjur eru skattlagðar og leiða einnig til skerðinga situr nánast ekkert eftir, ekki neitt, 45% skerðing plús skattur og þá má halda því fram að það sé bara ríkið, hann sé að vinna fyrir ríkið með skerðingunni og skattlagningunni.

Það er óumdeilt að áframhaldandi vinna eftir að ellilífeyrisaldri er náð eykur möguleika aldraðra til að bæta kjör sín, einkum þeirra sem lægstar hafa tekjurnar. Við getum ímyndað okkur einstakling sem hefur kannski engan séreignarsparnað, hefur alltaf verið í láglaunastörfum, á lítinn lífeyrissjóð og vill fara að vinna, vill fara að taka þátt í lífinu en samfélagið er með þessum hætti. Nei, honum er neitað um það, 45% skerðing um leið og hann er kominn yfir 2,4 milljónir á ári. Rannsóknir hafa sýnt fram á að vinna og virkni á efri árum stuðlar að betri heilsu, dregur úr einangrun og hefur almennt mikið félagslegt gildi fyrir eldri borgara. Að íslenska ríkið skuli setja takmarkanir og skerða möguleika einstaklinga til atvinnuþátttöku á efri árum er með hreinum ólíkindum, svo ekki sé meira sagt. Það eykur virkni, stuðlar að betri heilsu, dregur úr einangrun og hefur almennt mikið félagslegt gildi að fá að taka þátt í samfélaginu með vinnu, en nei, það er skert. Þarna er ríkið að ganga gegn hagsmunum samfélagsins og við munum spyrja okkur í framtíðinni þegar þessi breyting verður komin í gegn, og hún mun gera það á endanum, hvernig í ósköpunum stóð á því að árið 2024 og áratugina á undan skuli þessar skerðingar hafa verið, á árunum eftir hrun. Á sama tíma og þjóðin er að eldast og það er skortur á vinnuafli í landinu er verið að setja því skorður að eldri borgarar geti farið á vinnumarkað, verið að bregða fyrir þá fæti.

Ég hélt að allt samfélagið myndi hvetja eldri borgara og ellilífeyrisþega til að fara að vinna í hlutastörfum, finna sér starf við hæfi sem myndi passa, hálfan daginn, 30%, 60%, á þeirra eigin forsendum, en nei, það hefur ekki gerst. Því eru settar skorður þegar komið er yfir 2,4 milljónir á ári. Og sérstaklega þegar hægt er að sýna fram á það að útgjöld ríkissjóðs myndu ekki aukast. Hugsum þetta bara þannig: Einstaklingur er kominn á eftirlaun. Hann fær fé, pening frá almannatryggingum og hann fer síðan að vinna. Eykur það útgjöld ríkissjóðs? Nei, það gerir það ekki. Hvernig í ósköpunum á það að auka útgjöld ríkissjóðs? Ef einstaklingur, ellilífeyrisþegi, fær pening frá almannatryggingum og fer á atvinnumarkað þá eykur það að sjálfsögðu ekki útgjöld ríkissjóðs. Það bara gerir það ekki. Það sem það gæti gert er að auka tekjur ríkissjóðs af því að þá þarf hann að borga skatt af atvinnutekjum sínum. Þannig að það er útilokað að það fari að auka útgjöld ríkissjóðs. Það eykur tekjur ríkissjóðs vegna þess að sá sem fer að vinna borgar skatta sína með atvinnutekjum. Það er það sem gerist. Það sýnir að það eru engin rök, hvorki siðferðisleg, félagsleg né skattaleg rök fyrir því að hafa þessar skerðingar, engin. Horfum til þess, sem eru grundvallarréttindi allra, að það er öllum frjálst að stunda þá atvinnu sem þeir kjósa og að við skulum virkilega ætla að fara að segja við eldri borgara, elsta fólk þessa samfélags, fólk sem er komið á efri ár, á síðasta hluta ævi sinnar, að þeim sé ekki frjálst að velja að stunda þá vinnu sem þau kjósa og ef þau geri það verði farið að skerða bætur almannatrygginga, að fólk sem er búið að borga alla sína tíð skatt í ríkissjóð eigi ekki að fá greitt úr þriggja stoða kerfi lífeyrisgreiðslna sem byggir á almannatryggingum, lífeyrissjóði og séreignarsparnaði.

Við erum ekki að flytja þetta mál í fyrsta sinn. Eins og kom fram í máli framsögumanns erum við að flytja þetta mál í sjötta sinn hér en við skulum vona að dropinn holi steininn, að það sé mikilvægt að skerðingar vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega verði afnumdar. Og það er með hreinum ólíkindum að formaður Landssambands eldri borgara skuli segja að það sé enginn á Alþingi Íslendinga sem tali máli eldri borgara í þessu landi. Það sýnir ótrúlega vanþekkingu á því sem fer hérna fram, hvaða mál eru lögð fram og hvaða málum er mælt fyrir. Ég verð að segja eins og er að eftir að ég kom inn á þing hefur komið mér alveg ótrúlega á óvart hversu lítið almenningur veit um störfin sem fara hér fram og hversu lítið og á furðulegan hátt fjölmiðlar fjalla um störfin sem hér eru unnin.

Ég vonast til þess að þetta fái góða umfjöllun í velferðarnefnd og að velferðarnefnd hleypi þessu í 2. umræðu sem er oft umræðan þar sem hin pólitíska umræða fer fram, áður en málið fer til 3. umræðu og í atkvæðagreiðslu. Það væri bragur á því ef velferðarnefnd myndi gera það, fara yfir umsagnir í málinu og setja það aftur í 2. umræðu hér í þingsal.