154. löggjafarþing — 67. fundur,  7. feb. 2024.

almannatryggingar.

93. mál
[19:27]
Horfa

Sigþrúður Ármann (S):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að flytja þetta mál hér í dag og ekki í fyrsta skipti. Ég verð að viðurkenna að ég sakna þess að hún sé ekki hérna í þingsalnum þegar ég kem hér upp þar sem hún hefur haft hörð orð um það að enginn þingmaður sé hér til að hlusta á hana þegar hún talar fyrir málum sem skipta marga máli.

Þetta frumvarp snýr að eldri borgurum. Það er þannig að aldur er afstæður og sem betur fer er það þannig að fullt af fólki sem er komið á ákveðinn aldur sem er fyrir fram skilgreindur hefur fulla starfsgetu eða hefur alla vega enn þá starfsgetu, vill vinna, vill láta til sín taka. Og því eigum við að fagna. Það hefur mikil félagsleg áhrif á fólk að geta stundað vinnu upp að ákveðnu marki, jafnvel fulla vinnu. Hver og einn getur haft það á sinn hátt. Þetta getur komið í veg fyrir einangrun, fólk getur haldið heilsu sinni enn lengur, getur dregið úr félagslegum þáttum, öðrum kostnaði, m.a. í lyfjum og öðru. Þess vegna finnst mér það jákvætt skref sem var stigið hér þegar frítekjumarkið var tvöfaldað. Mér finnst að við eigum að halda áfram á þeirri leið að stuðla að því að fólk á öllum aldri geti látið til sín taka. Það er nefnilega þannig að við þurfum bæði að vilja verða gömul og vera gömul.