154. löggjafarþing — 68. fundur,  8. feb. 2024.

Stefna stjórnvalda í vímuefnamálum.

[11:02]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Herra forseti. Ég hef í vikunni verið að vekja athygli þingheims og fleiri á því, og við í þingflokki Viðreisnar, að það er fólk að deyja í stórum stíl vegna fíknisjúkdómsins hérna á Íslandi. Fjölmiðlar greindu frá því fyrr í vikunni að 18 ára drengur lést núna í janúar og ég veit um þrjú tilfelli til viðbótar þar sem fólk rétt yfir tvítugu hefur fallið á síðustu vikum vegna ópíóíðafíknar. Þetta eru um 100 einstaklingar, allt að 100 einstaklingar á ári ef miðað er við þær tölur sem hægt er að vinna upp úr gagnagrunni SÁÁ, sem falla úr þessum sjúkdómi á hverju einasta ári. Það deyja fleiri úr þessum sjúkdómi heldur en öllum samgönguslysum á Íslandi og það deyja fleiri úr þessum sjúkdómi heldur en flestum öðrum illvígum sjúkdómum á Íslandi. Hér er ég ekki byrjaður að tala um allt tjónið, þjáninguna, sorgina, eymdina sem leggst yfir heilu fjölskyldurnar, heilu stórfjölskyldurnar, ég er ekki að tala um allt fjárhagstjónið sem bæði fjölskyldur, fyrirtæki, sveitarfélög og ríkið verða fyrir með beinum og óbeinum hætti vegna þessa. Við getum auðvitað bæði sett þetta í samhengi við peninga og andlega líðan og við hljótum að þurfa að skoða báða þætti þegar við erum í einhvers konar viðbragði við þessum sjúkdómi. En vandamálið er að þrátt fyrir að við séum öll full af góðum vilja, því að það skynja ég svo sannarlega sterkt, þá gerist lítið. Það er ekki í gildi stefna. Við erum ekki að vinna samkvæmt neinni stefnu eða plani þegar kemur að þessum illvíga vágesti í samfélaginu og það er miður. Sú áætlun sem unnið var eftir rann út árið 2020 og síðan höfum við verið að gera þetta svona tilviljanakennt í fjárlögum hvers árs, bæta við peningum hér eða kroppa einhverja peninga þar. Það vantar áætlun og það vantar stefnu og það vantar plan.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra: Gerir fólk í ráðuneytinu sér ekki alveg grein fyrir því að með því að leggja meiri fjármuni og ná árangri á þessu sviði (Forseti hringir.) getum við sparað ógrynni fjármuna hjá ríki, sveitarfélögum, fyrirtækjum — allt vinnutapið, öll bótakerfin, annað álag á heilbrigðiskerfið? (Forseti hringir.) Má ekki vænta þess að ríkisstjórnin fari að vinna fyrir þennan hóp?

(Forseti (BÁ): Forseti minnir enn á ræðutímann sem er tvær mínútur í fyrri ræðu og ein mínúta í síðari ræðu í óundirbúnum fyrirspurnum.)