154. löggjafarþing — 69. fundur,  8. feb. 2024.

tímabundinn rekstrarstuðningur vegna náttúruhamfara i Grindavíkurbæ.

675. mál
[12:46]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um tímabundinn rekstrarstuðning vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ. Í frumvarpinu er lagt til nýtt úrræði sem ætlað er að koma til móts við vanda rekstraraðila vegna jarðhræringanna í Grindavík. Þann 13. janúar boðuðu stjórnvöld slíkt úrræði þegar tilkynnt var um að bærinn yrði lokaður í a.m.k. þrjár vikur á þeim forsendum að brúa mögulega millibilsástand á meðan sprunguhætta í bænum væri metin. Degi síðar hófst gos rétt norðan við bæinn sem breytti forsendum enn á ný.

Markmið þessa lagafrumvarps er að stuðla að því að rekstraraðilar sem orðið hafa fyrir verulegu tekjufalli vegna jarðhræringa og náttúruhamfara í Grindavíkurbæ geti viðhaldið nauðsynlegri lágmarksstarfsemi, varðveitt viðskiptasambönd og hafið starfsemi á ný með stuttum fyrirvara og tryggt viðbúnað. Gert er ráð fyrir því að úrræðið standi öllum rekstraraðilum í sveitarfélaginu til boða, hvort sem þeir eru einstaklingar eða lögaðilar. Skilyrði er að viðkomandi hafi stundað atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi, með starfsstöð í Grindavíkurbæ, þegar rýma þurfti bæinn, 10. nóvember 2023. Til að eiga rétt á úrræðinu þarf rekstraraðili að hafa orðið fyrir a.m.k. 40% tekjufalli vegna náttúruhamfaranna. Þá er einnig skilyrði að viðkomandi sé í skilum með skatta og gjöld sem komin voru á eindaga fyrir 10. nóvember sl., hann hafi skilað skattskýrslum og öðrum skattgögnum og bú hans hafi ekki verið tekið til gjaldþrotaskipta.

Tekjufall ber að reikna út fyrir hvern mánuð og gert er ráð fyrir að unnt verði að fá rekstrarstuðning vegna tímabilsins nóvember 2023 til og með apríl 2024. Fjárhæð styrks samkvæmt frumvarpinu er þannig reiknuð að hún er margfeldi stöðugilda í rekstrinum með 600.000 kr. og tekjufallshlutfalli fyrir hvern mánuð. Við útreikning á styrkfjárhæð er að hámarki gert ráð fyrir tíu stöðugildum en ég vil þó taka fram að fyrirtækjum með fleiri stöðugildi en tíu er að sjálfsögðu heimilt að sækja um. Rekstrarstuðningur fyrir hvern mánuð getur þannig að hámarki orðið 6 millj. kr. ef stöðugildi eru tíu og tekjur hafa dregist saman um 100%. Styrkfjárhæð getur þó ekki orðið hærri en sem nemur rekstrarkostnaði viðkomandi fyrirtækis í umsóknarmánuði.

Í frumvarpinu er ekki gert ráð fyrir því að launakostnaður sé talinn með rekstrarkostnaði enda er hann bættur sérstaklega gegnum annað tímabundið úrræði til stuðnings Grindvíkingum.

Líkt og gildir vegna úrræðisins sem er í gildi vegna launagreiðslna til Grindvíkinga er í frumvarpinu lagt til að endurgreiða beri rekstrarstuðning ef rekstraraðili greiðir út arð innan árs frá lokum stuðningstímabilsins, sem er fyrir 1. maí 2025. Gert er ráð fyrir að rekstraraðili sæki um rekstrarstuðninginn til Skattsins og að hægt verði að kæra ákvarðanir Skattsins til yfirskattanefndar.

Efri mörk á mati á kostnaði ríkissjóðs við stuðninginn eru 2.700 millj. kr.

Óvissan um framvinduna og tjónið í Grindavík er enn mikil og því gildir það sama um þetta úrræði eins og önnur úrræði stjórnvalda að endurskoða þarf hvort og þá hvernig tekist verður á við stöðuna þegar úrræðið rennur út í apríl og staðan kann að vera allt önnur en í dag og raunar, miðað við atburði dagsins, kann óvissan að aukast enn hraðar.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði vísað til efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umræðu að lokinni þessari umræðu.