154. löggjafarþing — 69. fundur,  8. feb. 2024.

vextir og verðtrygging o.fl.

109. mál
[13:20]
Horfa

Ágúst Bjarni Garðarsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Varðandi önnur lönd þá er það einfaldlega staðan að þau eru flest hver með lægri stýrivexti en við erum með í dag. Það hafa auðvitað verið miklar vaxtahækkanir og ég og hv. þingmaður erum sammála um það og höfum bæði gagnrýnt Seðlabankann fyrir þær. En hann er einfaldlega sjálfstæður í sínum störfum og ég held að það væri mjög óheppilegt til lengri tíma ef bankar væru með neikvæða raunvexti og ég held að þingmaðurinn átti sig vel á þeirri staðreynd. Þess vegna spyr ég hvaða úrræði þingmaðurinn myndi leggja til til þess að koma þessum hópum til bjargar og hvort þingmaðurinn sé hreinlega að leggja það til að Alþingi Íslendinga, við sem hér erum á löggjafarþinginu, eigi að hafa einhver áhrif á stýrivaxtaákvarðanir Seðlabankans, hvaða leið þingmaðurinn sér fyrir sér í því.

Ég segi bara enn og aftur að mig langar virkilega að heyra frá hv. þingmanni hvaða leiðir hún sér fyrir sér til þess að geta komið þessum hópum inn á fasteignamarkaðinn. Við sjáum að það hefur margt verið gert. Við erum að byggja upp nýtt húsnæðiskerfi. Við erum komin með almenna íbúðakerfið og komin með öflug óhagnaðardrifin leigufélög sem eru að breyta þessum markaði til hins betra, leyfi ég mér að segja. Hann er að taka utan um hópa sem hafa kannski verið fyrir utan þennan markað allt of lengi. En við erum samt enn í þeirri stöðu að við erum með þetta venjulega fólk, leyfi ég mér að segja, sem er að koma út úr skóla, hefur meðalháar tekjur og sem kemst ekki út á markaðinn. Hvernig ætlum við að tryggja að úrræði séu til staðar fyrir þá hópa, sem verðtryggingin og verðtryggð lán eru í dag, því miður, getum við sagt?