154. löggjafarþing — 69. fundur,  8. feb. 2024.

vextir og verðtrygging o.fl.

109. mál
[13:52]
Horfa

Flm. (Ásthildur Lóa Þórsdóttir) (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hélt ræðu um afnám verðtryggingar, var að mæla fyrir frumvarpi um það, og benti á ýmsa ágalla hennar, og allt í einu er umræðan farin að snúast um Evrópusambandið. Það er það sem gerist alltaf, í hvert einasta skipti. Hagsmunasamtök heimilanna hafa barist fyrir afnámi verðtryggingar í 15 ár og ég hef tekið þátt í þeirri baráttu í upp undir tíu ár af þessum 15. Og í hvert einasta skipti sem rætt er um afnám verðtryggingar hefst umræðan um krónuna. Það væri kannski allt í lagi ef það væri ekki sammerkt öllum sem fara í þessa umræðu að við gerum ekki neitt af því að við þurfum fyrst að skipta um gjaldmiðil. Það hefur sennilega fátt staðið jafn mikið í vegi fyrir afnámi verðtryggingarinnar og umræða eins og sú sem farin er í gang hér.

Þingmaðurinn býður ekki upp á neinar lausnir, hv. þm. Magnús Árni Skjöld Magnússon, aðrar en nýjan gjaldmiðil. Hvað á að gera þangað til? Það er ekkert í sjónmáli. Þar fyrir utan veit ég ekki betur en að formaður Samfylkingarinnar vilji bara leggja umræðu um ESB til hliðar. Hvernig ætlar Samfylkingin, ef hún kemst í ríkisstjórn, þá að takast á við ríkisfjármálin ef það á ekki að gera það eina sem þau telja vera lausnina og ætla alla vega ekki að ræða fyrir kosningar? Svo er ágætt að benda á að það er ekki bannað að verðtryggja evruna, það er bara ekkert bannað. Og ef íslenskir ráðamenn eru sammála um að þetta séu svo bráðnauðsynleg lán fyrir fátæka fólkið, til að hjálpa því inn á húsnæðismarkaðinn, verða þá ekki bara í boði verðtryggð evrulán með sömu afleiðingum? Það er nefnilega ekkert sem bannar það.