154. löggjafarþing — 70. fundur,  12. feb. 2024.

aðgerðir varðandi fíknisjúkdóma og geðheilbrigðismál.

[15:04]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Herra forseti. Ég er bæði sorgmædd og döpur að koma hér upp til að beina óundirbúinni fyrirspurn til hæstv. heilbrigðisráðherra um það ófremdarástand sem ríkir hér, bæði hvað lýtur að fíknisjúkdómum og geðheilbrigðismálum í landinu. Við tölum venjulega ekki um einstaka mál en foreldrar komu í Bítið í síðustu viku og voru að lýsa alveg ótrúlegu álagi, áföllum og vægast sagt skelfingum sem þau hafa þurft að ganga í gegnum með barnið sitt í geðheilbrigðiskerfinu. Ung stúlka sem núna er sögð liggja á sjúkrahúsi að berjast fyrir lífi sínu, í fjórða sinn hafði hún reynt að svipta sig lífi, og fær aldrei úrlausn sinna mála. Henni er hent á milli geðlækna, sálfræðinga og það gefast allir upp alveg eins og hún, þessi unga stúlka, er búin að gefast upp á lífinu. Núna í vikunni var ungur piltur sem vildi ekki lifa lengur. Hann fer frá bráðadeildinni upp á bráðageðdeild. Og hvað gerist þar? Eftir stutt spjall er hann útskrifaður þaðan, var reyndar aldrei lagður þar inn, og síðan hefur ekkert til hans spurst. Hann var 23 ára gamall. Ég er að velta fyrir mér, hæstv. heilbrigðisráðherra: Hvað er til ráða? Hvað erum við raunverulega að gera? Getur einhver hæstv. ráðherra svarað því, þrátt fyrir að ég sé að beina þessari fyrirspurn til hæstv. heilbrigðisráðherra, eigum við einhverja einustu stoð innviða í landinu sem við getum sagt með stolti að við séum stolt af og okkur finnst standa í lappirnar og okkur finnst vera raunveruleg stoð innviða? Við erum að horfa upp á heilbrigðiskerfið okkar gjörsamlega í molum. Það er ekki að bregðast við dauðans alvöru. Við erum með á áttunda hundrað einstaklinga sem eru að biðja um hjálp inn á sjúkrahúsið Vog. En við greiðum 20 sinnum meira í að taka á móti hælisleitendum heldur en við leggjum í málaflokkinn, sem er SÁÁ, 20 sinnum meira, (Forseti hringir.) bara vegna þess að við vinnum ekki vinnuna okkar, við erum að draga lappirnar í því að vinna málin það hratt og örugglega (Forseti hringir.) að kostnaðurinn sé ekki algerlega fram úr öllu hófi.

Herra forseti. Ég get svo svarið að ég sé engin ljós. Ég hélt að ég væri með óendanlegan ræðutíma.

(Forseti (BÁ): Ljósabúnaðurinn er eitthvað að bregðast okkur.)

Mikið fyndist mér eðlilegt að ég fengi að njóta vafans. En hvað um það.

(Forseti (BÁ): Forseti reyndi að sýna nokkurt umburðarlyndi gagnvart hv. þingmanni en því miður var það þannig að ljósabúnaður í ræðustólnum fór ekki í gang á réttum tíma. Biðst forseti velvirðingar á því.)