154. löggjafarþing — 70. fundur,  12. feb. 2024.

tilgangur tilvísanakerfis hjá heilsugæslunni.

[15:34]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Ég vil fyrst segja varðandi barnatilvísanir að þá bað ég um það fyrir nokkrum mánuðum að taka saman umfangið þannig að ég áttaði mig á því af því að við erum vissulega meðvituð um að það gangi ekki lengur. Þó að upphaflega væri mjög mikill skilningur fyrir því að beita þessu tilvísanakerfi, af því að þetta fer síðan áfram til sérgreinalækna og það skiptir bara miklu máli, þá er því miður umfangið orðið þannig að það er ekki alveg að skila þeim markmiðum sem af stað var lagt með og þá verðum við að bregðast við. Við erum alveg á þeim stað. Sú vinna gengur að mínu mati bara alveg ágætlega.

Varðandi þetta aukna álag, og það er talað um aðgengi, ætla ég bara að benda á að Heilsuvera, þó að hún hafi kallað á aukaverkanir, skriffinnsku, þá erum við að tala um samskipti frá 2015, talandi um stafrænt aðgengi, úr 0 nánast og í um 600.000. (Forseti hringir.) Þetta er aðgengi. Um helming af þeim næst að afgreiða þannig að viðkomandi þarf ekki (Forseti hringir.) á frekari þjónustu að halda. Þetta kalla ég aukið aðgengi að þjónustu.

(Forseti (BÁ): Forseti minnir hv. þingmenn og hæstv. ráðherra á að ræðutími er takmarkaður í óundirbúnum fyrirspurnum; tvær mínútur í fyrri ræðu og ein mínúta í síðari.)