154. löggjafarþing — 70. fundur,  12. feb. 2024.

Sundabraut.

88. mál
[17:05]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Frú forseti. Ég vil rétt koma hér upp og halda smá ræðu um þetta góða mál og mikilvæga sem lagning Sundabrautar er. Það yrði gríðarlega mikilvæg samgöngubót með tilkomu hennar. Hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir, framsögumaður þingsályktunartillögunnar, fór vel yfir það hér áðan. Þetta er líka, eins og kom fram, mjög góð einkaframkvæmd og ég hygg að innviðasjóðir lífeyrissjóðanna hefðu mikinn áhuga á framkvæmd eins og við sjáum hér. Hér er horft til laga sem voru samþykkt í þinginu 2020, um samvinnuverkefni við samgönguframkvæmdir, sem heimila Vegagerðinni að semja við einkaaðila um að hafa samvinnu um tilteknar brýnar framkvæmdir. Í þeim lögum er gert ráð fyrir að Vegagerðin megi fela einkaaðilum slíka framkvæmd alla eða einungis hluta hennar.

Það má líka benda á umsögn Summu um mál um samfélagsvegi sem ég mælti fyrir í haust þar sem þeir sýna einmitt áhuga á samstarfi við sveitarfélög um að fara í slíkar framkvæmdir við einstaka vegi og fáfarna vegi. En hér er stórt og mikið tækifæri fyrir lífeyrissjóðina til að dreifa áhættu í sínum fjárfestingum og fá öruggt tekjustreymi af slíkum framkvæmdum.

Eins og kom fram í máli hv. framsögumanns, Bryndísar Haraldsdóttur, hér áðan eru 50 ár síðan farið var að tala um Sundabraut, maður var í leikskóla á þessum árum þegar þetta kemur fyrst fram. Hún var síðan staðfest í svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins 1985–2005 og veturinn 1994–1995 var Sundabraut tekin í tölu þjóðvega á Alþingi sem þjóðvegur nr. 450, þannig að brautin er meira að segja komin með númer sem þjóðvegur. Eins og kom fram hér fyrr er um að ræða verkefni þar sem er reiknað út og metið — skýrslan kom út, minnir mig, í janúar 2022 — að þjóðhagslegur ábati af Sundabraut sé 186–238 milljarðar eftir því hvaða útfærsla er farin. Þar kemur fram að mesti ábatinn felist í minni akstri, útblæstri og mengun og styttri ferðatíma vegfarenda vegna styttri leiða til og frá höfuðborgarsvæðinu. Heildarakstur á höfuðborgarsvæðinu gæti minnkað um 150 þús. km á hverjum sólarhring við opnun Sundabrautar. Ef ég man rétt eru innri vextir framkvæmdarinnar metnir 10–14%, metnir eftir mismunandi kostum í skýrslunni, hvort það er brú eða göng, og svo næmnigreiningu sem var gerð í málinu út frá mismunandi breytingum sem gætu orðið á verkefninu. Þessir innri vextir, 10–14%, eru alltaf mjög góðir miðað við vegagerð á Íslandi. Mig minnir að á Íslandi þyki það nú bara gott að vera með 5–6% innri vexti í samgöngum þannig að þetta er örugglega ein af arðsömustu framkvæmdum sem hægt er að fara í vegagerð á Íslandi. Ég veit þó um eina sem er hagstæðari, Húnavallaleið fram hjá Blönduósi, þar sem innri vextir af þeirri framkvæmd eru yfir 20%. En það geta ekki allar framkvæmdir verið svo góðar.

Það er mikilvægt að það kemur einmitt fram að þetta muni stytta ferðatíma, þetta er umhverfismál þar með. Frá miðborginni upp á Kjalarnes, hef ég heyrt á fundum tengdum þessu máli, gæti þetta verið 15–20 mínútna stytting sem er náttúrlega veruleg stytting í tíma. Þá vil ég nú aðeins koma inn á stærri hugmyndir sem sá sem hér stendur hefur haft um að stytta leiðina milli Akureyrar og Reykjavíkur. Með nokkrum framkvæmdum, tiltölulega einföldum sumum, mætti stytta ferðatímann milli Akureyrar og Reykjavíkur um 45–50 mínútur. Sundabraut er einn af þeim þáttum, stytting upp á 15–20 mínútur. Húnavallaleiðin við Blönduós er um 15 mínútna stytting. Borgarnes vill koma veginum fram hjá byggðinni og það eru einhverjar mínútur í því og svo Vindheimaleið í Skagafirði. Þetta er það sem verið er að vinna með og þetta eru allt hlutir sem skipta máli. Sundabrautin er náttúrlega stór liður í þessu og myndi styrkja, eins og kemur fram í þingsályktunartillögunni, byggðir á öllu Vesturlandi og Norðurlandi þegar komið væri út fyrir höfuðborgarsvæðið og myndi þannig auka samkeppnishæfni og mögulega efla verðmætasköpun á stórum hluta landsins og auðvitað efla umferðaröryggi og fækka slysum.

Síðan er þáttur sem kemur núna kannski nýjastur inn í þetta mál og það er vegna náttúruhamfaranna sem við höfum upplifað á Reykjanesskaga. Það eru ekki mörg ár síðan, kannski fimm, sex, sjö ár, að það var mikil umræða í samfélaginu um að það ætti að leggja höfuðáherslu á byggð milli Hafnarfjarðar og Reykjanesbæjar, byggja upp og búa til samfellu þar á milli í hraununum þar. Nú hygg ég að það sé ekki mikil umræða um það. Þá þurfum við að leita annarra leiða og fara inn á öruggari svæði með byggðirnar og í kringum Sundabraut eru kannski ákjósanlegustu byggingarsvæðin á höfuðborgarsvæðinu sem væri hægt að tengja mjög vel við Sundabraut og samþætta svæðið. Þá horfum við náttúrlega á Geldinganesið, Álfsnes og svo Kjalarnesið. Geldinganesið er byggingarsvæði sem er mjög hentugt, aflíðandi til sjávar á nesinu, og mig minnir að það séu um 200–300 hektarar þar. Á Kjalarnesi gæti verið geysistórt byggingarland, miklu stærra heldur en á Geldinganesi. Þarna eru miklir möguleikar og ég held að það sé mikilvægt að við lítum til þess núna út frá öryggissjónarmiðum og framtíðaruppbyggingu að byggja á þessum svæðum þar sem eru ekki sprungur eða möguleiki talinn á eldgosum á svæðinu eins og á sumum öðrum byggingarsvæðum við höfuðborgina. Ég held að þau rök séu orðin mjög stór í þessu máli.

Eins og kom fram hér áðan í ræðu hv. þm. Bryndísar Haraldsdóttur hefur starfshópur um Sundabraut verið starfandi og hefur að undanförnu verið að kynna þetta, sérstaklega í haust, þá voru opnir fundir þar sem verið var að kynna markmið hópsins og að hverju væri stefnt. Það var m.a. talað um að útboð gætu mögulega farið fram, að mig minnir, haustið 2025 eða innan tveggja ára og upphaf framkvæmda við Sundabraut gæti orðið 2026 og framkvæmdum þá lokið, að mig minnir í áætlun sem unnið er með, 2031 eða 2032, svona eftir minni. Það er verið að vinna umhverfismat í tengslum við þessa framkvæmd og ágætisumræða hefur verið varðandi þau mál. Það hefur verið töluverð umræða um leiðarvalið í gegnum Grafarvog og við Gufunes og það virðist vera að nást lending um hvernig eigi að standa að því þannig að vonandi förum við að sjá einhverja niðurstöðu um hvert eigi að fara með málið.

Það er síðan mikilvægt fyrir okkur, einmitt í tengslum við komandi samgönguáætlun, að ná einhverri niðurstöðu og helst skýrari, varðandi þá áætlun sem á að gilda til næstu ára í tengslum við samgönguáætlunina, að koma að þessu máli lengra. Sundabraut var eitt af sex PPP-verkefnum sem voru sett upp sem mögulegar einkaframkvæmdir og er væntanlega, gæti ég trúað, það verkefni sem er arðvænlegast, innri vextir mögulega bestir í þessu verkefni. Þar með þarf náttúrlega líka að koma því í einhvern farveg að það sé hægt að rukka fyrir, það verði borgað fyrir að nýta sér Sundabrautina, eitthvert lágt gjald, það þarf ekki að vera hátt í þessu máli enda umferðin gríðarlega mikil. Mig grunar nú að þessi leið verði enn þá stærri umferðarlega séð en við reiknum með núna vegna þess að kostirnir eru svo gríðarlega miklir varðandi hana.