154. löggjafarþing — 71. fundur,  13. feb. 2024.

Störf þingsins.

[13:35]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Herra forseti. Á hvaða vegferð eru stjórnvöld sem gullhúða svoleiðis persónuverndarlöggjöfina og allt það sem snýr að okkur hér heima að við í rauninni þurfum nánast að sýna sjálfum okkur löggilt skilríki á hverjum degi til að sanna fyrir okkur sjálfum að jú, þetta er jú ég sjálf. Þetta er komið út yfir allan þjófabálk þegar búið er að binda og hlekkja samfélagið svo í heild sinni að heill þjóðfélagshópur, sá sem er að ganga hér síðasta æviskeiðið, getur ekki þrátt fyrir að hafa fulla getu og vilja til að sjá áfram um sig sjálfur, vera heima eins og móðir mín og baka og elda sinn mat sjálf á níræðisaldri og vera svo algerlega svipt í rauninni öllu sjálfræði sem lýtur að því að geta leitað sér aðstoðar í Heilsuveru eða í bankakerfinu og annað slíkt vegna þess að hún er ein af þeim sem segir: Ég treysti mér ekki í allt þetta .is. Gerum okkur grein fyrir því að þessi löggjöf er að skilja heilan þjóðfélagshóp eftir, jaðarsetja hann algjörlega í því að geta haldið áfram að njóta þess að vera sjálfstæður og sjálfbær, svo lengi sem heilsan leyfir. Og nú það nýjasta í sambandi við allt þetta persónuverndar-hitt og persónuverndar- þetta, innleiðingu á stafrænum lausnum, sem er jú vel fyrir okkur hin sem þykir það ekkert mál, núna fáum við það í andlitið að kornabörn séu að fá bréf um að þau séu útsett fyrir skipulagðri glæpastarfsemi og peningaþvætti af því að foreldri eða einhver náinn aðstandandi er í einhverri opinberri stöðu. Þetta er orðin svo mikil klikkun og þetta er orðið svo galið að ef við förum ekki að girða okkur í brók hérna þá veit ég ekki hvar það endar eiginlega. Það endar sennilega með því að það verður skotið einhverri örflögu í hausinn á manni og maður blikkar augum til að geta fengið að nota peninga í bankanum, vegna þess að núna getur maður ekki einu sinni komið með 10.000 kr. í bankann nema til að vera spurður: Heyrðu, hvar fékkstu þessa peninga?