154. löggjafarþing — 72. fundur,  13. feb. 2024.

Áhrif náttúruhamfara á innviði á Suðurnesjum, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[14:51]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar að byrja á því að þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir að taka þessa umræðu. Mig langar að ræða aðeins við hæstv. ráðherra, ekki um þær aðgerðir sem eru núna heldur hvað við þurfum að gera til að tryggja heitt vatn áfram til Reykjaness, vegna þess að við höfum heyrt það frá vísindamönnum að það geti gosið aftur jafnvel fyrstu vikuna í mars. Við vitum ekki hvort það hraun sem þá mun koma muni fara yfir leiðsluna eða jafnvel yfir sjálft raforkuverið. Það kom fram á fundi í atvinnuveganefnd í morgun að tillaga um olíukatla sem lagt var til að yrðu fengnir til að búa til heitt vatn til lengri tíma, svokölluð neyðarhitaveita, hefði verið lögð fyrir ríkisstjórn fyrir rúmum þremur mánuðum síðan (Forseti hringir.) að farið yrði í þá vinnu að útbúa tengistykki fyrir slíka katla til að tengja inn á hitaveituna (Forseti hringir.) en að það hafi ekki verið gert og það bíði enn ákvörðunar ríkisstjórnar. Það að búa þá til mun taka þrjá mánuði, þrjá mánuði sem við erum búin að missa nú þegar.

(Forseti (ÁLÞ): Forseti vill minna þingmenn á að virða ræðutímann sem er ein mínúta.)