154. löggjafarþing — 72. fundur,  13. feb. 2024.

Áhrif náttúruhamfara á innviði á Suðurnesjum, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[14:53]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg hárrétt hjá hv. þm. Gísla Rafni Ólafssyni að það eru ýmsar leiðir sem hafa verið lagðar fram fyrir ríkisstjórn og sú leið sem hann vísar hér til, sem eru olíukatlar, umfangsmiklir, sem brenna mikilli olíu, var að sjálfsögðu tekin til skoðunar og hún hefur verið í áframhaldandi skoðun. Það var hins vegar mat almannavarna, sem er það mat sem við kynntum, að skynsamlegri leið væri að ráðast í byggingu varnargarða í kringum Svartsengi og verja þannig orkuverið þar. Þessir olíukatlar sem um ræðir brenna alveg óheyrilegu magni af olíu sem líka er mjög kostnaðarsamt þannig að matið var að það væri betra að forgangsraða öðrum aðgerðum umfram þessa. Hún hefur hins vegar verið í áframhaldandi skoðun og hönnun hvað varðar mögulega nýtingu á slíkum kötlum. En hitt var metið meira forgangsmál, að ráðast í varnargarðana á sínum tíma þegar þessi leið er lögð fram sem ein möguleg leið.